Körfubolti

Ísland nær HM í fyrsta sinn eftir ákvörðun FIBA um Rússa

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Hermannsson og félagar í íslenska landsliðinu unnu frækinn sigur gegn Ítölum í febrúar.
Martin Hermannsson og félagar í íslenska landsliðinu unnu frækinn sigur gegn Ítölum í febrúar. Vísir/Bára

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta er öruggt um sæti í seinni umferð undankeppni HM 2023 og á þar með möguleika á að spila á heimsmeistaramóti í fyrsta sinn í sögunni.

Þetta er niðurstaðan eftir ákvörðun FIBA, alþjóða körfuknattleikssambandsins, varðandi þátttöku Rússlands í mótum á vegum sambandsins.

FIBA tilkynnti í dag að öll úrslit í þeim mótum sem Rússar voru þátttakendur í hefðu nú verið ógilt, vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Ísland og Rússland voru saman í riðli í undankeppni HM ásamt Hollandi og Ítalíu, og höfðu Rússar unnið alla þrjá leiki sína til þessa. Þrjú efstu lið riðilsins áttu að fara áfram á seinna stig undankeppninnar.

Gætu lent í baráttu við Úkraínu um HM-farseðil

Nú hafa Rússar verið dæmdir úr leik og þar með er ljóst að Ítalía, Ísland og Holland fara áfram á seinna stigið og leika í riðli með þremur efstu liðunum úr G-riðli (Georgía, Spánn, Úkraína og Norður-Makedónía). 

Fjögur af liðunum sex sem leika saman í riðli á seinna stiginu komast svo á sjálft heimsmeistaramótið sem allt í einu er orðinn raunhæfur möguleiki fyrir Ísland. Þannig gæti sú barátta til dæmis snúist um að hafa betur gegn Úkraínu sem er í 32. sæti heimslistans, fjórtán sætum fyrir ofan Ísland.

Ísland með tvo eða þrjú sigra með sér

Ísland vann útisigur gegn Hollandi í nóvember og heimasigur gegn Ítalíu í febrúar en tapaði svo útileiknum gegn Ítölum. Eini leikur íslenska liðsins sem eftir er er því heimaleikur við Holland á Ásvöllum í byrjun júlí.

Ísland tekur með sér úrslitin úr fyrra stigi undankeppninnar áfram á seinna stigið og á því möguleika á að taka þangað með sér þrjá sigra og eitt tap.

Ákvörðun FIBA gildir bæði um Rússland og Hvíta-Rússland. Engin mót á vegum FIBA verða haldin í löndunum og löndin hafa verið tekin út úr þeim mótum sem þau voru í, sem voru undankeppni HM karla auk þess sem Rússland átti sæti á HM kvenna í september og HM U17 stelpna í sumar. Ákveðið hafði verið að Púertó Ríkó kæmi inn í stað Rússlands á HM kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×