Menning

„Að búa til eitthvað fallegt úr einhverju ljótu“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Listakonan Annalísa Hermannsdóttir vann til Sólveigar Anspach leikstjórnarverðlaunanna fyrr á árinu.
Listakonan Annalísa Hermannsdóttir vann til Sólveigar Anspach leikstjórnarverðlaunanna fyrr á árinu. Aðsend

Annalísa Hermannsdóttir starfar sem sviðshöfundur, leikstjóri og tónlistarkona. Hún vann tónlistarmyndband ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrr á árinu fyrir myndband við lagið „Ég er bara að ljúga er það ekki?“ og vinnur nú að því að setja upp sýninguna Stelpur og Strákar, sem er frumsýnd 25. maí næstkomandi. Blaðamaður tók púlsinn á Önnulísu.

Hvaðan sækirðu innblástur?

Ég sæki innblástur í nærumhverfi mitt, samfélagsumræðuna og persónulega reynslu. Myndi segja að ég væri persónulegust í lagasmíðunum og pólitískust í sviðslistunum, en svo er það náttúrulega samtengt - hið persónulega er pólitískt og allt það. Ég elti hugmyndir og impúlsa sem ég er spennt fyrir og sem ég finn það skipta mig máli. 

Það skiptir mig miklu máli að nálgast listaverk af einlægni og að finna hjartað í öllu sem ég geri.

Hvernig útfærir þú vanalega hugmyndir sem koma til þín?

Það fer nefnilega eftir ýmsu, ég vinn mikið þvert á miðla þannig hugmyndirnar geta orðið að tónlist, texta, myndböndum, sviðslistum, eða samsuðu af þessu öllu. Ég held að ég taki bara svona tímabil - stundum er ég rosa mikið að semja tónlist og texta og stundum er ég meira í leikstjórninni, í myndböndum eða leikhúsi. Leikstjórnin er meiri hópvinna og tónlistin meira gerð í einrúmi. 

En þegar ég fæ hugmyndir fæ ég yfirleitt ekki fullmótaðar hugmyndir; ég fæ bara eins og svona tilfinningu eða kveikju að einhverju, elti hana og þróa áfram annað hvort ein eða með öðrum. 

Fyrst og fremst reyni ég að fylgja innsæinu, þó það sé stundum erfitt.

Tónlistarmyndbandsverkið mitt „Ég er bara að ljúga er það ekki?“ varð til dæmis fyrst til í flæðiskrifum þar sem ég skrifaði allan textann. Svo bjó ég til sviðsverk út frá textanum og vann tónlistina samhliða því. Ég vann þetta sviðsverk í LHÍ á sviðshöfundabraut. Eftir að ég sýndi verkið fór ég að gæla við hugmyndina um að gera myndband úr því, af því að mér fannst það í rauninni alltaf vera svolítið eins og tónlistarmyndband á sviði. Þannig ég aðlagaði það að myndbandsmiðlinum og skellti bara í myndbandið (það var miklu meiri vinna en að skella bara í það).

Geturðu sagt mér frá þeim verðlaununum sem þú hefur unnið í ár?

Já! Ég vann tónlistarmyndband ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrir Ég er bara að ljúga er það ekki? Mér datt ekki í hug að ég myndi vinna þetta enda í flokki með fullt af frábærum listamönnum. 

Ég held að ég hafi aldrei nokkurn tímann verið í jafn miklu sjokki og þegar ég fékk þessi verðlaun.

Svo eru það Sólveigar Anspach leikstjórnar verðlaunin, þau eru veitt í minningu þeirrar frábæru kvikmyndaleikstýru Sólveigar Anspach. Það er mikill heiður að fá þessi verðlaun og ótrúlega hvetjandi og valdeflandi. Mér finnst líka bara svo innilega frábært að myndbandið mitt sé að fá góðar viðtökur þar sem það fjallar um mikilvægt og stórt málefni sem við þurfum að ræða meira og sjá fleiri fleti á. 

Það er ótrúlega gaman að fá svona verðlaun og viðurkenningar sem listamaður, en ekki síður er mikilvægt að heyra frá áhorfendum að verkið hafi haft áhrif, og að gefa því sem skiptir máli pláss í listsköpun minni.
Annalísa með Sólveigar Anspach verðlaunin sín í forgrunni.Aðsend

Og þegar ég hugsa um þetta þá held ég að nákvæmlega þetta sé ástæðan fyrir því að ég geri list. 

Töfrarnir við það að geta búið til eitthvað sem er stærra en ég út frá einhverju sem lét mér líða ömurlega, að búa til eitthvað fallegt úr einhverju ljótu, partý úr tómleikanum, að búa til verk sem aðrar manneskjur geta speglað sig í, fundið hjálp í eða ró og liðið eins og þær séu ekki einar.

Svo fer ég til Parísar með verkið í kjölfarið, á Cóte Court kvikmyndahátíðina, og ég er geggjað spennt fyrir því.

Hvað hefur undirbúningsferli sýningarinnar Stelpur og strákar verið lengi í bígerð?

Við byrjuðum undirbúningsferlið í október í fyrra og æfingaferlið fór svo á fullt núna í lok mars. Svo er bara frumsýningin á miðvikudaginn næsta, 25. maí, í Gaflaraleikhúsinu, og önnur sýning 26. maí!

Björk Guðmundsdóttir fer með einleik í verkinu Stelpur og strákar.Aðsend

Hvað geturðu sagt mér um sýninguna?

Sýningin fjallar um konu sem er að fara yfir liðna tíma, eftir atburð sem ég get ekki sagt þér frá því þá spoila ég (spilli ég) verkinu. Þetta er semsagt einleikur eftir Dennis Kelly, sem er verðlaunaleikskáld frá Bretlandi og það var fyrst sýnt í Royal Court Theatre í London árið 2018 við einróma lof gagnrýnenda. Þá lék Carey Mulligan aðalhlutverkið og Lyndsey Turner leikstýrði. Nú erum við í sviðslistahópnum Fullorðið fólk að setja verkið upp í fyrsta sinn á Íslandi í íslenskri þýðingu Matthíasar Tryggva Haraldssonar. Björk Guðmundsdóttir samstarfskona mín og vinkona leikur þetta, með glæsibrag bara svona svo það komi fram, og ég leikstýri. 

Verkið tekur fyrir stór þemu og varpar fram spurningum um samfélagið, hlutverk kynjanna og ofbeldi.
Annalísa, leikstjórinn, og Björk Guðmundsdóttir, leikkonan.Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Það er líka hægt að sjá tengingar milli inntaks verksins og hlaðvarpsins okkar Bjarkar ,,Þetta fullorðna fólk er svo skrýtið”, þar sem við fáum til okkar gesti og spjöllum um af hverju mannfólk gerir það sem það gerir og er eins og það er. 

Verkið spyr stórra svona spurninga og er bæði fyndið og sorglegt, skemmtilegt og átakanlegt.

Miðasalan á Stelpur og strákar er hafin. Það verða einungis tvær sýningar hér á höfuðborgarsvæðinu, 25. og 26. maí í Gaflaraleikhúsinu. Svo förum við á nokkra staði út á landi í sumar.


Tengdar fréttir

Þessi hlutu Ís­lensku tón­listar­verð­launin

Hljómsveitin FLOTT og Mono Town, rapparinn Birnir og tónlistarkonurnar Bríet og Anna Gréta Sigurðardóttir hlutu öll tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaunin sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Hörpu fyrr í kvöld. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×