Innlent

Sam­starfið ekki endi­lega það sem kjós­endur kölluðu eftir

Bjarki Sigurðsson og Fanndís Birna Logadóttir skrifa

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að mögulegt samstarf flokksins með Samfylkingunni, Pírötum og Viðreisn sé ekki endilega það sem kjósendur flokksins hafi kallað eftir. Hann muni ræða við flokksmenn á morgun um stöðu mála.

Í dag greindi Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, frá því að hún ætlaði að standa með bandalagi sínu við Pírata og Samfylkinguna í borginni og bauð Framsóknarflokknum til meirihlutaviðræðna með bandalaginu.

Þar með útilokaði hún samstarf Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins í næsta meirihluta. Einar ætlar að melta þessar upplýsingar áður en hann gengur til formlegra viðræðna.

„Þetta fækkar valkostunum. Núna erum við í því að melta þessar upplýsingar. Ég hef ákveðið að kalla saman fund Framsóknarfólks í Reykjavík og ræða þar þá stöðu sem er komin upp í borgarmálunum. Við höfum talað skírt í þessari kosningabaráttu um það að við erum tilbúin að vinna bæði með hægri og vinstri. Það er bara eins og gengur. Það er málefnalegur samhljómur með flestum flokkum þannig við erum tilbúin að ræða við alla,“ sagði Einar í samtali við fréttastofu í kvöld.

Hann segir það vera málefnalegur samhljómur með flestum flokkum og því sé hann tilbúinn að ræða við alla.

„Ég skal alveg viðurkenna það að þetta er ekki sú ásýnd breytinga sem ég held að kjósendur hafi verið að kalla eftir, að þeir þrír flokkar sem eru þarna í stöðunni, að það verði niðurstaðan að við göngum til liðs við þá. En samt sem áður, það er lýðræðisleg krafa um það að það verði gerðar breytingar í borginni og við í Framsókn ætlum að svara henni.“

Hann segist ekki gera kröfu um borgarstjórastólinn heldur skipti það meira máli að ná saman um málefnin.

„Ég hef sagt það frá því að úrslitin voru ljós að mér finnst ekki skynsamlegt að setja fram einhverjar kröfur, afarkosti, áður en að menn byrja að ræða um málefnin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×