Fótbolti

Zlatan í að­gerð og ferlinum mögu­lega lokið

Sindri Sverrisson skrifar
Zlatan Ibrahimovic fagnaði vel með félögum sínum í AC Milan eftir að liðið varð ítalskur meistari en varð svo að fara í hnéaðgerð.
Zlatan Ibrahimovic fagnaði vel með félögum sínum í AC Milan eftir að liðið varð ítalskur meistari en varð svo að fara í hnéaðgerð. Getty/Claudio Villa

Zlatan Ibrahimovic verður frá keppni út þetta ár vegna meiðsla og mögulega er ferli þessa fertuga knattspyrnugoðs þar með lokið.

Zlatan var nýbúinn að fagna Ítalíumeistaratitli með AC Milan þegar félagið gaf það út í dag að hann færi í hnéaðgerð og yrði frá keppni í að minnsta kosti 7-8 mánuði.

Núgildandi samningur Zlatans við Milan rennur út eftir mánuð og Svíinn þarf núna að gera upp við sig hvort að hann vilji halda áfram að spila fótbolta.

Zlatan kom inn á í seinni hálfleik í 3-0 sigrinum gegn Sassuolo á sunnudag þegar Milan tryggði sér ítalska meistaratitilinn. Hann gekkst svo undir hnéaðgerðina í Lyon í Frakklandi og heppnaðist hún vel. Um er að ræða fremra krossband í vinstra hnénu.

Zlatan kom við sögu í 23 deildarleikjum með AC Milan í vetur, var ellefu sinnum í byrjunarliðinu, og skoraði átta mörk.

Hann hefur nú orðið ítalskur meistari fimm sinnum, auk tveggja titla með Juventus sem voru felldir úr gildi, einu sinni Spánarmeistari með Barcelona, fjórum sinnum Frakklandsmeistari með PSG og tvisvar Hollandsmeistari með Ajax, auk þess að vinna mun fleiri titla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×