Rúmir þrír mánuðir eru nú liðnir frá því að innrás Rússa inn í Úkraínu hófst en frá þeim tíma hafa 1.056 flóttamenn komið til Íslands í leit að vernd.
Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri móttöku flóttamanna, segir að flæðið sé stöðugt þar sem um tíu til fimmtán manns séu að koma daglega og því þurfi reglulega að færa fólk á milli úrræða.
„Það flæðir inn og út úr þessum skammtímaúrræðum okkar, fólk er þar í nokkrar vikur áður en það heldur svo áfram annað hvort yfir til sveitarfélaganna eða jafnvel í einhver skjól sem eru á okkar vegum þar sem þau geta þá verið í allt að þrjá mánuði,“ segir Gylfi.
Eitt af þeim skammtímaúrræðum sem um ræðir er Hótel Saga en greint var frá því um síðustu helgi að hópi flóttamanna þar hafi verið gert að fara annað. Margir leituðu í kjölfarið á samfélagsmiðla í leit að leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það yrði annars flutt á Bifröst í skjól.
„Það hefur gengið upp og ofan, það sem ég hef heyrt af því alla vega,“ segir Gylfi aðspurður um hvernig fólkinu hafi gengið. „Þetta er náttúrulega erfiður markaður, það er ekki mikið í boði, og ég tala nú ekki um að ef þú ert útlendingur og talar um alla ensku heldur þá er þetta svolítið erfitt.“
„Ég bara hvet fólk til þess að vera jákvætt í garð flóttamannanna sem hingað koma, að leigja þeim húsnæði. Þetta er gott fólk upp til hópa,“ segir Gylfi.
Fólk fái alltaf aðstoð frá yfirvöldum en staðreyndin sé sú að sífellt þyngra reynist nú að finna langtímahúsnæði.
„Það sem við erum að vinna í núna það er að safna saman húsnæði úti á landi og þá jafnvel störfum sem eru þeim samhliða þannig að fólk gæti þá farið í starf og búsetu víðs vegar um landið,“ segir Gylfi.
Þá er verið að fjölga úrræðum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. „Það hefur staðið tæpt á því stundum að þau fyllist öll hjá okkur þannig að við veðrum að vera skrefi á undan hugsa vel fram í tímann,“ segir hann.