Fótbolti

Fæddist í flótta­manna­búðum en leikur nú til úr­slita í Meistara­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eduardo Camavinga í leik með Real Madríd.
Eduardo Camavinga í leik með Real Madríd. David S. Bustamante/Getty Images

Eduardo Camavinga mun að öllum líkindum koma við sögu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þegar Real Madríd mætir Liverpool. Það er með hreinum ólíkindum ef horft er til þess að hann fæddist í flóttamannabúðum í Angóla síðla árs 2002.

Camavinga er aðeins 19 ára gamall en hefur spilað stóra rullu hjá Real á leiktíðinni. Hann var keyptur frá Rennes í Frakklandi síðasta sumar. Hann hefur eðlilega hafið flesta leiki leiktíðarinnar á bekknum enda Real með sannkallaða þungavigtarmiðju.

Miðjumaðurinn hefur hins vegar spilað stóran þátt í velgengni Real og nær alltaf komið inn á. Segja má að innkoma hans gegn Manchester City hafi snúið síðari viðureign liðanna Real í hag. Liðið skoraði tvívegis undir lok venjulegs leiktíma og vann svo í framlengingu.

„Ég fæddist í flóttamannabúðum í Angóla eftir að fjölskylda mína flúði stríðið. Foreldrar mínir hófu nýtt líf í Frakklandi og fótbolti hefur leitt mig alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Ég er þakklátur fyrir að spila leikinn og stoltur af því að gera slíkt sem fyrrum flóttamaður,“ sagði Camavinga í viðtali fyrir leik kvöldsins.

Það er spurning hvort Camavinga hafi sömu áhrif í kvöld er Real Madríd mætir Liverpool en það er ótrúlegt að hugsa til þess að drengur sem fæddist í flóttamannabúðum á þessari öld sé kominn alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×