Æ fleiri fjöldamorðingjar síðustu missera hafa réttlætt gjörðir sínar með því að vísa til kenningarinnar „The Great Replacement“ sem á íslensku væri hægt að kalla „Hin stóru umskipti“. Þetta er lítið þekkt kenning sem þó hefur vaxið hratt fiskur um hrygg á síðustu árum.
Hin stóru umskipti
Fyrir áratug gaf franski rithöfundurinn Renaud Camus út bók með þessum titli, Hin stóru umskipti. Þar er því haldið fram að í gangi sé stórt samsæri runnið undan rifjum frjálslyndra og vinstri sinnaðra alþjóðasinna á Vesturlöndum sem miði að því að flytja inn stóra hópa múslima og fólks frá Afríku og með þeim hætti gera hvíta Evrópubúa og Bandaríkjamenn að minnihluta í eigin heimahögum.
Camus, sem er 75 ára gamall, hefur verið hálfgerður minnipokamaður í sínu starfi sem rithöfundur. Þessi bók aflaði honum þó fylgis á meðal öfgahægrimanna og þjóðernissinna og nú er svo komið að þó nokkur fjöldi framámanna í bandaríska Repúblikanaflokknum heldur þessari kenningu á lofti. Sjónvarpsmaðurinn Tucker Carlson hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni Fox heldur til að mynda þessari kenningu hátt á lofti.
Og sem fyrr segir, þá réttlæta æ fleiri fjöldamorðingjar gjörðir sínar með því að vísa til þessarar kenningar. Þar má meðal annars nefna Payton Gendron sem um miðjan þennan mánuð drap 10 blökkumenn í stórmarkaði í Buffalo í Bandaríkjunum og Brenton Harrison, sem árið 2019 myrti 51 mann við mosku í Nýja Sjálandi.
Segist vera friðarsinni
Camus sjálfur segir í samtali við spænska dagblaðið El País að hann sé einlægur friðarsinni og innblásinn af boðskap Gandhis, hann hafi engan veginn verið að búa til eða setja fram kenningu í bókinni um umskiptin, heldur hreinlega verið að lýsa veruleikanum og staðreyndum. Hann segist ekki bera nokkra ábyrgð á verkum þessara fjöldamorðingja, veruleikinn í kringum þá sé þeirra innblástur.
Fjöldamorðum hvítra kynþáttahatara hefur fjölgað gríðarlega á síðustu misserum í Bandaríkjunum, svo mjög að Christopher Wray, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, sagði við yfirheyrslur í bandaríska þinginu í fyrrahaust að þau væru orðin helsta hryðjuverkaógn Bandaríkjanna og að leyniþjónustan væri með um 2.000 mál undir smásjánni þar sem kynþáttahatarar ættu hlut að máli, tvisvar sinnum fleiri en fyrir 5 árum.