
Leiðtogar Evrópusambandsins komust loks að málamiðlunarsamkomulagi í gærkvöldi um sjötta refsiaðgerðarpakka sambandsins gegn Rússlandi. Ungverjar, sem eru mjög háðir olíu frá Rússum, höfðu tafiðsamkomulagið frá byrjun maí. Samkvæmt því verður lagt bann við innflutningi á olíu frá Rússlandi sem flutt er með skipum sem er um tveir þriðju af þeirri olíu sem Evrópusambandsríkin hafa keypt af Rússum.
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði í gærkvöldi að rússnesk olía um pípulagnir næði til Póllands, Þýskalands, Ungverjalands og Slóvakíu. Pólverjar og Þjóðverjar hefðu ákveðið að draga úr olíuinnflutningi frá Rússlandi í áföngum og hætta honum um áramót.

„Þannig höfum við náð til 90 prósenta af olíuinnflutningi Rússa innan þessara tímamarka," sagði von der Leyen. En Evrópusambandið bætti einnig tveimur rússneskum bönkum inn í refsiaðgerðir sínar og lokar á aðgang þeirra að SWIFT greiðslukerfinu.
Í dag munu leiðtogar Evrópusambandsins ræða leiðir til að tryggja útflutning Úkraínu á um 22 milljónum tonna af korni sem Rússar hafa komið í veg fyrir að flutt verði út. Skortur á korni frá Úkraínu hefur þegar valdið miklum verðhækkunum áheimsmarkaði og óttast er að skortur á korni geti valdið hungursneyð víða um heim.
Rússar einbeita sér að eyðileggingu borga og bæja í Donbas

Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu sagði í daglegu ávarpi sínu í gærkvöldi að Rússar hefðu skotið á bílalest sem var að flytja almenna borgara frá átakasvæðum í Donbas þar sem franskur fréttamaður hefði látist í gær. Rússar hefðu safnað saman gríðarlegum herafla á svæðinu og haldið uppi stöðugum árásum á helstu borgir og bæi héraðsins. Þá hafi þeir komið í veg fyrir útflutning 22 milljóna tonna af korni. Í fyrsta lagi reyni Rússar að ljúga því að refsiaðgerðir Vesturlanda komi í veg fyrir útflutninginn.

„Í öðru lagi hefur rússneska innrásarliðið stolið að minnsta kosti hálfri milljón tonna af korni frá landsvæðum Úkraínu. Þeir leita nú ólöglegra leiða til að selja þetta korn í ágóðaskyni og halda uppi skorti á mörkuðum," sagði Zelenskyy í gærkvöldi.