Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði til þjóðaratkvæðagreiðslunnar í mars vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu og breytts öryggisumhverfis í álfunni.
Mætti forsætisráðherrann á kjörstað í morgun og sagði við fjölmiðla að hún hafi „kosið með hjartanu“ og merkt við „já“. Breytingin myndi „styrkja öryggi“ Danmerkur.
Danmörk er sem stendur eina aðildarríki Evrópusambandsins sem ekki tekur þátt í varnarsamstarfi Evrópusambandsins. Núverandi fyrirkomulag felur í sér að Danir taka ekki þátt í þeim hluta sameiginlegu utanríkis- og öryggistefnu sambandsins sem snýr að varnarmálum. Þannig taka Danir ekki þátt í sameiginlegum hernaðarverkefnum ESB og fjármögnun þeirra. Sömuleiðis taka Danir heldur ekki þátt í sendingum hergagna á vegum sambandsins.
Danir gengu í Evrópusambandið árið 1973 en fengu fjórar undanþágur frá Maastricht-sáttmálanum árið 1992, meðal annars hvað varðar þátttöku í varnar- og myntsamstarfi.
Skoðanakannanir hafa bent til þess að fjörutíu prósent Dana séu nú fylgjandi þátttöku í varnarsamstarfi ESB-ríkja og um þrjátíu prósent andvíg. Um fjórðungur segist óákveðinn.