Viðskipti erlent

Sheryl Sandberg hættir hjá Meta

Samúel Karl Ólason skrifar
Sheryl Sandberg og Mark Zuckerberg.
Sheryl Sandberg og Mark Zuckerberg. Getty/Kevin Dietsch

Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóri Meta, ætlar að hætta hjá fyrirtækinu eftir að hafa verið mjög áberandi í fremstu röðum þar í fjórtán ár. Í tilkynningu segist hún ætla að einbeita sér að mannúðarstarfi og að öðru leyti viti hún ekki hvað framtíðin beri í skauti sér.

Hún mun þó sitja áfram í stjórn Meta.

Sandberg hefur verið annar mest áberandi yfirmaður Meta, á eftir Mark Zuckerberg, forstjóra. Hún hefur átt stóran þátt í því að byggja upp eitt stærsta auglýsinga- og samfélagsmiðlafyrirtæki heims.

Zuckerberg hefur hyllt Sandberg og eignað henni heiðurinn að því hve vel Facebook hefur verið rekið í gegnum árin og því hve háar auglýsingatekjur Meta eru. Hann segir hana hafa kennt sér að reka fyrirtæki.

Þá hefur hún staðið í brúnni þegar Meta hefur siglt ólgusjó á undanförnum árum. Til að mynda í tengslum við kosningar í Bandaríkjunum, afskipti Rússa af þeim, og hneykslismálum tengdum persónuupplýsingum notenda Meta og hvað gert hefur verið við þær upplýsingar.

Notendum Facebook fækkaði nýverið í fyrsta sinn í átján ára sögu fyrirtækisins og samkeppni fyrirtækisins í samfélagsmiðlageiranum hefur aukist til muna.

Bæði Sandberg og Zuckerberg sögðu frá ákvörðun hennar á Facebook fyrr í kvöld.

Í frétt Washington Post segir að Sandberg hafi barist fyrir aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu og hafði meðal annars skrifað bók um það málefni, þar sem hún hvatti konur til að vera meira áberandi á vinnustöðum.

Javier Olivan, sem er einn af yfirmönnum Facebook og hefur unnið þar til langs tíma, mun taka við skyldum Sandberg að einhverju leyti. Zuckerberg segir í áðurnefndri færslu að hann ætli að dreifa skyldum hennar á fleiri en eitt starf.


Tengdar fréttir

Tekur ábyrgð á ráðningu falsfréttaritara

Samskiptastjóri Facebook sagði í minnisblaði að hann hefði borið ábyrgð á ráðningu fyrirtækis sem rannsakaði andstæðinga og gagnrýnendur, meðal annars George Soros, og skrifaði falsfréttir um þá.

Facebook sagt rúið öllu trausti

Valdafólk bálreitt eftir að NYT greindi frá því að Facebook hefði látið skrifa falsfréttir sem tengdu gagnrýnendur miðilsins við eitt helsta skotmark öfgaíhaldsmanna. Zuckerberg segist ekki hafa vitað af ráðningunni.

Facebook enn og aftur á hælunum

Forsvarsmenn Facebook segjast ekki hafa reynt að afvegaleiða almenning í tengslum við áróðursherferð Rússa á samfélagsmiðli fyrirtækisins í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum 2016.

Ráða fyrrverandi varaforsætisráðherra

Samfélagsmiðlarisinn Facebook tilkynnti í gær um að Nick Clegg, fyrrverandi varaforsætisráðherra Bretlands og formaður Frjálslyndra demókrata, hefði verið ráðinn yfirmaður heimsmála- og samskiptateymis fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×