Innlent

Almar Guðmundsson nýr bæjarstjóri Garðabæjar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Almar Guðmundsson hefur verð ráðinn bæjarstjóri í Garðabæ.
Almar Guðmundsson hefur verð ráðinn bæjarstjóri í Garðabæ. Aðsend

Almar Guðmundsson hefur verið ráðinn nýr bæjarstjóri Garðabæjar. Hann tekur við starfinu af Gunnari Einarssyni sem lætur af störfum eftir sautján ár sem bæjarstjóri.

Fram kemur í tilkynningu að bæjarstjórn Garðabæjar hafi samþykkt ráðninguna á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í dag. Sigríður Hulda Jónsdóttir verður forseti bæjarstjórnar og Björg Fenger formaður bæjarráðs.

Almar er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá London Business School. Hann hefur verið bæjarfulltrú Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ frá árinu 2014 og var oddviti flokksins í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. 

Undanfarið ár hefur Almar starfað hjá Reiknistofu lífeyrissjóða þar sem hann leiddi vinnu við breytingar á rekstri hugbúnaðarkerfis í eigu lífeyrissjóða. Hann starfaði hjá Krít fjármögnunarlausnum og síðar hjá Kviku á árunum 2017 til 2020 en á árunum 2009 til 2017 var hann framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og hjá Samtökum iðnaðarins. Þar áður sinnti hann ýmsum stjórnunarstöðum hjá Íslandsbanka og síðar Glitni. 

Almar er uppalinn í Garðabæ. Hann er kvæntur Guðrúnu Zoega, deildarstjóra á Hrafnistu Skógarbæ, og eiga þau saman börnin Tómas Orra, Ölmu Diljá, Fríðu Margréti, Baldur Frey og Bjarna Ragnar.


Tengdar fréttir

D'Hondt haukur í horni xD í Garðabæ

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins bar sig vel eftir sveitarstjórnarkosningar þrátt fyrir tap flokksins víðs vegar um landið. Bjarni nefndi höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ til vitnis um sterka stöðu flokksins en þá stöðu getur Bjarni meðal annars þakkað D'Hondt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×