Straus hefur stýrt Brann, sem áður hét Sandviken, frá því í september 2020. Undir hans stjórn varð liðið norskur meistari í fyrra eftir að hafa unnið sautján leiki og gert eitt jafntefli í átján leikjum tímabilsins.
Brann er sömuleiðis á toppnum núna í norsku úrvalsdeildinni, fimm stigum á undan Vålerenga (sem á leik til góða) og Rosenborg.
Hjá Bayern heldur Straus áfram að þjálfa Íslendinga því í liðinu er þríeykið Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir.
Bayern endaði í 2. sæti þýsku deildarinnar í vor undir stjórn Jens Scheuer sem var látinn fara eftir tímabilið.
„Ég get varla beðið eftir því að hefja störf sem aðalþjálfari FC Bayern. Ég hlakka mikið til að byrja að þjálfa liðið,“ sagði Straus en hann mun þó stýra Brann í bikarleik á miðvikudag áður en við tekur hlé fram í ágúst í Noregi vegna EM. Forráðamönnum Brann gefst því tími til að finna nýjan mann í hans stað.
Straus segist taka við frábæru liði hjá Bayern:
„Hjá stórveldi eins og FC Bayern er markmiðið alltaf að vinna allar keppnir sem við tökum þátt í. Við erum með lið með virkilega, virkilega góðum leikmönnum og ég ber mikla virðingu fyrir því starfi sem þjálfarinn Jens Scheuer og hans starfsfólk hefur gert. Ég mun ekki umturna öllu heldur reyna að þróa liðið skref fyrir skref,“ sagði Straus á heimasíðu Bayern.