Umfjöllun og viðtöl: FH-Leiknir R. 2-2 | Leiknismenn stálu stigi

Árni Konráð Árnason skrifar
Leiknismenn stálu stigi í uppbótartíma.
Leiknismenn stálu stigi í uppbótartíma. Vísir/Hulda Margrét

FH og Leiknir gerðu 2-2 jafntefli er liðin mættust í Kaplakrika í 9. umferð Bestu-deildar karla í fótbolta í kvöld. Maciej Makuszewski reyndist hetja Leiknismanna þegar hann jafnaði metin fyrir gestina í uppbótartíma.

Strax á 2. mínútu fyrri hálfleiks fengu Leiknismenn vítaspyrnu þegar að Mikkel Elbæk ætlaði að senda boltann fyrir mark FH-inga en boltinn í hönd Loga Hrafns og Erlendur ekki í nokkrum vafa og flautar víti. Emil Berger á punktinn og setur hann fastann í þaknetið, alveg út í hægra horni og algjörlega óverjandi fyrir Atla Gunnar í marki FH-inga.

FH-ingar létu þetta þó ekki á sig fá og einungis fjórum mínútum síðar jöfnuðu þeir leikinn. Það gerði Baldur Logi á 6. mínútu með alvöru „poti“. Kristinn Freyr ætlaði að lauma boltanum á Baldur en Birgir komst í boltann og boltinn á markteig þar sem að Matthías Vilhjálmsson náði skallanum aðeins nær marki en Viktor Freyr nær ekki boltanum og Baldur Logi potar boltanum inn í markið, FH jafnar 1-1.

Leiknismenn voru nálægt því að komast yfir á 16. mínútu en Birgir átti þá frábæra fyrirgjöf fyrir mark FH-inga þar sem að Róbert komst fyrir framan Ólaf og náði skoti á markið, en skotið beint á Atla Gunnar.

Kristinn Freyr er vonandi að finna markaskónna sína en hann skoraði annan leikinn í röð þegar að hann kom FH í 2-1 forystu á 22. mínútu. Aftur voru Leiknismenn í vandræðum með að hreinsa boltann burt og Lasse Petry skallar boltann á D-bogann þar sem að Kristinn Freyr lúrði og setti boltann fastann framhjá Viktori Frey og kom FH í 2-1.

Það var á 34. mínútu sem að FH-ingar fengu aukaspyrnu á hættulegum stað. Boltinn fyrir markið og Guðmundur Kristjánsson mætti á fleygiferð og skallaði boltann fast í þverslánna, varnarmenn Leiknis sofandi á verðinum heppnir að sleppa með skrekkinn. Viktor Freyr átti síðan frábæra vörslu á 43. mínútu þegar að hann varði fastan skalla Ólafs Guðmundssonar í slánna.

Mörkin urðu þó ekki fleiri í fyrri hálfleik og fóru FH-ingar með eins marks forystu til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var að mestu tíðindalítill, það var þó á 73. mínútu sem að Leiknismenn virtust ætla að koma boltanum í net FH-inga, þar var á ferðinni Kristófer Konráðsson sem að kom inn á 5 mínútum áður. Kristófer fékk skot af stuttu færi, sannkallað dauðafæri en Atli Gunnar gerði afar vel í marki FH-inga.

Í kjölfarið virtist draga aðeins úr FH-ingum, þeir féllu aftar og voru oft á tíðum að bjóða hættunni heim. Leiknismenn gáfust ekki upp og héldu áfram að sækja á FH-inga. Það var síðan á 3. mínútu uppbótartíma þegar að fyrirgjöf barst og Maciej Makuszewski, sem að kom inn á sem varamaður á 75. mínútu, var einn á auðum sjó og stýrði boltanum í netið og jafnar, 2-2. Þetta reyndist lokamark og skildu liðin jöfn, sanngjörn úrslit eftir frábæra endurkomu Leiknismanna. Bæði lið höfðu vonast eftir sigri, en FH er í 9. sæti í Bestu deildinni, langt um neðar en þeir vilja vera og Leiknismenn sitja í 11. sæti og hafa enn ekki unnið leik.

Af hverju skildu liðin jöfn?

FH náði ekki að klára leikinn. Þeir virtust þreyttir og hörfuðu til baka þegar 15. Mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Leiknismenn nýttu það heldur betur og sýndu frábæran karakter með jöfnunarmarki sínu.

Hverjir sköruðu fram úr?

Kristinn Freyr átti mjög flottan leik, loksins að finna markið og er þetta annar leikurinn í röð sem að hann skorar. Markmennirnir báðir voru frábærir og björguðu oft vel.

Hvað gekk illa?

Vörn Leiknismanna var ekki nógu föst fyrir lengst af. Það komu allt of oft upp stöður þar sem að FH-ingar gátu leikið sér með boltann nálægt vítateig Leiknismanna og langt var í næsta varnarmann. Það var nánast undantekningarlaust skallatennis eftir föst leikatriði FH-inga, Leiknismönnum tókst illa að losa boltann.Þá virtist þreyta taka yfir lið FH þegar stundarfjórðungur var eftir.

Hvað gerist næst?

Leiknismenn fara á Hlíðarenda og mæta þar Valsmönnum 21. júní kl. 19:15.

FH-ingar fara upp á Akranes og mæta þar ÍA á sama tíma.

Sigurður Höskuldsson: Ætla að skrifa þetta stig á stuðningsmennina

Sigurður höskuldsson, þjálfari Leiknis.Vísir/Hulda Margrét

„Ég ætla að skrifa þetta stig á stuðningsmennina sem að voru mættir hérna. Þeir gáfu okkur þvílíka orku og eitthvað sem að við þurftum. Ég held að hvernig tímabilið sé búið að rúlla, þegar að ég heyrði að það væru að koma dýrvitlausir stuðningsmenn, að það myndi gefa okkur orku og það svo sannarlega gerði það“ sagði Sigurður.

Leiknismenn hafa glímt við markaþurrð upp á síðkastið, var þetta í fyrsta sinn í sumar sem að þeir voru fyrri til þess að komast yfir í leiknum og skora jafnframt tvö mörk í dag.

Aðspurður hafði Sigurður þetta að segja „það segir sig sjálft þegar mörkin fara að detta. Ef við lítum á það sem að er búið að gerast á tímabilinu er það í rauninni það sem að hefur vantað. Færin hafa verið þarna og einhvern vegin hugarfarið, stemmningin í hópnum hefur verið þannig að við höfum verið ánægðir með ógeðslega margt en það hefur vantað mörkin og nú eru þau aðeins að detta, þannig að það horfir til bjartari tíma“.

Leiknismenn skoruðu á 93. mínútu og jafna þar með leikinn. „Þetta var ógeðslega sætt, mér fannst við góðir í fyrri hálfleik, eftir markið okkar – fyrsta skipti sem við komumst yfir í sumar. Leiðinlegt að það hafi dugað í fimm mínútur. Mér fannst fyrri hálfleikur mjög skemmtilegur, hann var mjög opinn. Verst hvað við gáfum Kidda allt of mikið pláss, löguðum það loksins þegar að þeir voru búnir að skora tvö mörk og svo vorum við í basli með föstu leikatriðin. Annars fannst mér við mjög góðir, þetta var opinn og skemmtilegur leikur. Smá bras á okkur í seinni hálfleik í uppspilinu, en krafturinn og svo að sjá þetta mark í lokinn það var virkilega, virkilega fallegt“ sagði Sigurður og bætti við miklu hrósi á stuðningsmenn Leiknis, en þeir létu vel í sér heyra á leiknum og sungu allan tímann.

Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH, mætti seint og illa í viðtal að leik loknum, en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Vísis var honum sagt upp störfum að leik loknum eftir slæmt gengi FH-inga í sumar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira