Kona sem féll af rafhlaupahjóli í miðborginni skömmu fyrir klukkan níu í gærkvöldi er talin vera ökklabrotin. Hún var flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðamóttöku, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrr um kvöldið var tilkynnt um að maður hefði dottið af rafskútu í Kópavogi. Hann brotnaði illa á hægri handlegg og var sömuleiðis fluttur á bráðamóttöku.
Skömmu eftir miðnætti var svo tilkynnt um mann sem hafði dottið af rafmagnhlaupahjóli í póstnúmeri 104. Þegar lögreglu bar að garði var hann með meðvitund en mjög ölvaður. Gat hann hvorki gefið upp nafn né kennitölu sökum ölvunar.