LeBron James þekkir nær hvert mannsbarn, eða svo gott sem. Líkt og Vísir greindi frá á dögunum þá er stjarna Los Angeles Lakers stödd hér á landi í sumarfríi. Nú síðast virðist LeBron hafa notið lífsins í Skagafirðinum.
Ásamt því að gista á býli Depla á Norðurlandi þá kíkti LeBron á Drangey með Drangey tours. Fyrirtækið reka þeir feðgar Viggó Jónsson og Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls.
Á Facebook-síðu Drangey tours voru birtar skemmtilegar myndir af LeBron með feðgunum en Helgi Rafn hefur verið máttarstólpi í liði Tindastóls í fleiri ár. Þar kom fram að hinn 37 ári gamli LeBron hafi skellt sér í Drangey og notið veðurblíðunnar í Skagafirðinum.
LeBron hefur haft nægan tíma til að skipuleggja sumarfríið þar sem Los Angeles Lakers fór ekki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar á síðustu leiktíð. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, nýr þjálfari er mættur til leiks og þá virðist leikmannahópur liðsins ætla að taka miklum breytingum milli ára.
Hvort Helgi Rafn hafi reynt að plata LeBron til að taka slaginn með Tindastól í Subway-deild karla eftir að samningur hans við Lakers rennur út er óvíst vel fór á með þeim félögum ef marka má myndirnar.