Fótbolti

Skrifaði undir nýjan samning með vinstri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir skrifar undir samning sinn við Bayern München en hún þurfti að nota vinstri hendi þar sem sú hægri var enn í gifsi.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir skrifar undir samning sinn við Bayern München en hún þurfti að nota vinstri hendi þar sem sú hægri var enn í gifsi. Instagram/@ceciliaranr

Á mánudag tilkynnti þýska stórliðið Bayern München að markvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefði skrifað undir samning við félagið til ársins 2026. Samningurinn var greinilega undirritaður nokkru á undan þar sem Cecilía Rán var enn með gifs á hægri hendi og átti í stökustu vandræðum við að skrifa undir með vinstri.

Á mánudag tilkynnti þýska stórliðið að Cecilía Rán yrði áfram hjá félaginu næstu fjögur árin eftir að hafa gengið til liðs við félagið á láni í janúar. 

Það vakti athygli að í myndbandi sem Bayern birti þá sést Cecilía Rán eiga í mestu vandræðum með að skrifa undir samninginn þar sem hægri hönd hennar er í gifsi en líkt og meirihluti mannkyns er Cecilía Rán rétthent.

Um miðjan apríl handarbrotnaði Cecilía Rán á æfingu með Bayern. Var talið að hún yrði frá í allt að tólf vikur en það var engin bilbug á henni að finna. Hún hefur greinilega staðið sig með prýði á æfingum fram að því þar sem liðið vildi ólmt semja við hana til lengri tíma.

Hin 18 ára gamla Cecilía Rán var vissulega frá í nokkrar vikur en nýtti tímann greinilega vel, hún skrifaði undir nýjan samning sem var tilkynntur á mánudag og hélt landsliðssæti sínu en sem stendur má reikna með að hún og Telma Ívarsdóttir vermi varamannabekk Íslands á EM í Englandi. 

Hún hefur fengið verðskuldaða athygli innan vallar enda var hún varla fermd þegar hún var farin að spila í meistaraflokki. Eftir góðan tíma hjá Fylki keypti enska úrvalsdeildarfélagið Everton markvörðinn unga en lánaði hana fyrst til Svíþjóðar og svo til Bayern. Fór það svo að þýska stórliðið fékk hana alfarið nú í sumar og er spurning hvort hún fái enn fleiri tækifæri með liðinu á næstu leiktíð.

Það verða því áfram þrír Íslendingar í Bayern en ásamt Cecilíu Rán eru Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir á mála hjá félaginu.

Cecilía Rán á að baki 8 A-landsleiki og hefur haldið hreinu í sex þeirra. Þá á hún að baki 24 leiki fyrir yngri landslið Íslands. 


Tengdar fréttir

Cecilía Rán skrifar undir hjá Bayern til 2026

Markvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur skrifað undir fjögurra ára samning hjá þýska stórliðinu Bayern München. Hún var á láni hjá félaginu á síðari hluta síðasta tímabils en er nú samningsbundin til ársins 2026.

Amanda og Cecilía á lista Goal yfir stjörnur framtíðarinnar

Landsliðskonurnar Amanda Andradóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir eru báðar á lista vefmiðilsins Goal yfir stjörnur framtíðarinnar, en miðillinn tók saman lista yfir stjörnur framtíðarinnar sem vert er að fylgjast með á EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×