Á Mjóeyri er rekin myndarleg ferðaþjónustu með fjölbreyttri afþreyingu. Gistiheimili og tíu sumarhús eru á staðnum. Þar er líka boðið upp á gönguferðir og hreindýraleiðsögn. Yrðlingurinn vekur sérstaka athygli en hann og tíkin á staðnum leika sér mikið saman.
„Þetta er yrðlingsgrey, sem er hérna að leika sér. Hann kom hingað til okkar og er bara frjáls á Mjóeyrinni, getur komið og farið eins og hann vill,“ segir Sævar Guðjónsson, ferðaþjónustubóndi á Mjóeyri.

„Já, já, það gengur bara mjög vel í dag og mikið bókað hjá okkur í sumar, þannig að við erum bara alsæl og í sumarskapi,“ segir Sævar aðspurður um ferðasumarið.
Heiti potturinn er svolítið öðruvísi á Mjóeyri en annars staðar.
„Þetta er bátabaðið, þetta er mjög skemmtilegt og mjög vinsælt að stelast í þetta.“

:Óvenju gæf maríuerla er á Mjóeyri en hún er með nokkra unga upp í rjáfri í einu sumarhúsinu.
Sævar og fjölskylda eru líka með glæsilegan veitingastað rétt við Mjóeyri og þau fá sömu gestina til sín ár eftir ár í gistingu og þá í nokkra daga í senn, fólk sem kemur til að hlaða batteríin eins og stundum er sagt.
„Já, þetta er bara uppáhaldsstaðurinn minn. Ég kom hingað fyrst fyrir 11 árum en ég hafði aldrei komið hingað áður í þennan fjörð og það gerðist bara eitthvað, þetta er töfrastaður. Ég einmitt svaf í 12 tíma í nótt, sem ég hef ekki gert í langan tíma, það gerist eitthvað hérna út á Mjóeyri,“ segir Þórunn Erna Clausen, leikari og fastagestur á Mjóeyri.
