Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkti ráðningarsamning við Aldísi Hafsteinsdóttur, nýjan bæjarstjóra, á síðasta fundi bæjarstjórnar þann 23. júní. Í fundargerð segir að laun oddvita verði fest við 50% af þingfararkaupi en taki síðan breytingum eftir launavísitölu.
Jón Bjarnason, oddviti Hrunamannahrepps, skrifaði færslu á íbúasíðu Hrunamannahrepps á Facebook í gær þar sem hann vildi svara fyrirspurnum íbúa um laun oddvita. Þar staðfesti hann að laun Aldísar væru 1,780 milljónir á mánuði og að hún fengi akstursstyrk upp á 1.700 kílómetra sem samkvæmt reiknivél Stjórnarráðsins eru 217 þúsund krónur.
Fulltrúar L-listans sem eru í minnihluta samþykktu ekki samninginn og lögðu fram bókun um að þeim fyndist ekki rétt að það ætti að hækka starfshlutfall og laun oddvita frá síðasta kjörtímabili. Ekki væri rétt að miða bæði við þingfararkaup og launavísitölu, réttara væri að miða við að fylgja þingfararkaupi, vegna þess laun oddvita myndu hækka þrisvar sinnum á næstu sjö mánuðum eins og samningurinn væri settur upp.
Þess má geta að íbúar Hrunamannahrepps eru 818 samkvæmt nýjustu tölum Sambands íslenskra Sveitarfélaga.