Sara Björk er uppalin hjá Haukum en færði sig yfir í Kópavog og lék með Breiðabliki áður en hún hélt út í atvinnumennsku árið 2011. Samdi hún við sænska liðið Rosengård og segja má að þar hafi ástarævintýri Söru Bjarkar og að vinna titla hafi byrjað en hún varð alls fjórum sinnum sænskur meistari með liðinu og einu sinni bikarmeistari.
Eftir frábæra dvöl í Svíþjóð ákvað þýska stórliðið Wolfsburg að fá landsliðsfyrirliðann í sínar raðir. Þar hélt ástarævintýrið áfram en Sara Björk varð þrisvar Þýskalandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari. Eftir nokkur góð ár með Wolfsburg hélt Sara Björk til Evrópumeistara Lyon.
Er Sara Björk gekk í raðir Lyon var liðið án efa besta lið Evrópu. Hún hóf feril sinn með Lyon á því að skora gegn sínu gamla félagi Wolfsburg í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Í apríl 2021 tilkynnti Sara Björk svo að hún væri ólétt en hún sneri til baka er Lyon varð bæði Frakklands- og Evrópumeistari síðasta vor.
Hún gekk svo í raðir ítalska stórliðsins Juventus í sumar.
Fyrsti meistaraflokksleikur? Með Haukum árið 2004.
Lag sem kemur þér í gírinn fyrir leik? Eitthvað með Justin Bieber eða Beyoncé.
Í hvernig skóm spilarðu? PUMA.
Uppáhalds lið í enska? Manchester United.
Uppáhalds matur? Pasta.