Fótbolti

Sjáðu mörkin úr leik Ís­lands og Belgíu á­samt vítinu sem fór for­görðum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom mikið við sögu í leik gærdagsins.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom mikið við sögu í leik gærdagsins. Vísir/Vilhelm

Ísland og Belgía gerðu 1-1 jafntefli er liðin mættust í D-riðli Evrópumóts kvenna í fótbolta. Ísland var betri aðilinn í leiknum og klúðraði meðal annars vítaspyrnu sem þýðir að bæði lið eru með eitt stig eftir fyrstu umferð riðilsins. 

Ísland fékk kjörið tækifæri í fyrri hálfleik til að komast yfir þegar vítaspyrna var dæmd. Berglind Björg Þorvaldsdóttir, leikmaður Brann í Noregi, fór á punktinn en því miður varði markvörður belgíska liðsins spyrnu Berglindar.

Staðan markalaus í hálfleik en í þeim síðari bætti Berglind Björg upp fyrir vítaspyrnuklúðrið með því að skora eftir frábæra fyrirgjöf Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. Skallaði hún boltann í netið og staðan orðin 1-0 Íslandi í vil.

Því miður fékk Belgía vítaspyrnu eftir að Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var dæmd brotleg innan vítateigs. Öruggt víti og staðan orðin 1-1. Reyndust það lokatölur leiksins að þessu sinni.

Ísland mætir Ítalíu á fimmtudaginn kemur og þarf helst sigur þar til að gera sér vonir um að komast upp úr D-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×