Skoðun

Borgin stendur þétt með olíu­fé­lögunum og gefur þeim grænt ljós á lóða­brask

Trausti Breiðfjörð Magnússon skrifar

Á fundi borgarráðs í síðustu viku var lögð fram tillaga um „aðilaskipti“ á lóð vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Birkimelur 1. Óskað var eftir því að í stað Skel fjárfestingafélags hf, tæki Reir þróun ehf við réttindum og skyldum vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni.

Forsagan á þessari lóð er sú að þann 25. júní 2021 gerðu Reykjavíkurborg og Skeljungur hf. (nú Skel fjárfestingafélag hf.) samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni. Þarna er rekin bensínstöð en gegn því að henni yrði lokað fengi eigandi lóðarinnar (Skel fjárfestingafélag hf) að byggja íbúðir á lóðinni með sérstökum fríðindum sem borgin ætlar að veita félaginu. Þannig mun félagið ekki þurfa að greiða til borgarinnar vegna innviða og byggingarréttar. Þetta væri þá í samræmi við stefnu borgarinnar um fækkun bensínstöðva. Þetta gildir því í öllum þeim samningum sem borgin hefur gert og mun gera í framtíðinni við olíufélögin. Að þau fái sérstök fríðindi fyrir að loka bensínstöðvum og byggja.

Það er ekki nóg með að olíufélögin fái fríðindi vegna uppbyggingar, heldur mega þau líka framselja byggingarréttinn til annarra aðila. Þannig var samþykkt á fundi borgarráðs í síðustu viku að Reir þróun ehf tæki við réttindum og skyldum af Skel fjárfestingafélagi hf. og má því hefja uppbyggingu (eða jafnvel selja aftur?). Þetta félag fær sömu undanþágu og skeljungur fékk frá gjaldi á innviðar og byggingarrétti.

Samningarnir sem borgin hefur gert og mun gera við olíufélögin er hér því að stuðla að stórfelldu lóðabraski væntanlega með tilheyrandi stórhagnaði. Íbúðaverð á þessari lóð mun því koma til með að verða gríðarlega hátt. Kjörnir fulltrúar mega þar að auki ekki fá neinar upplýsingar um það hvað Skel fjárfestingafélag fær greitt fyrir aðilaskiptin. Um „trúnaðarmál“ er að ræða.

Það vekur furðu að flokkar sem kenna sig við jafnaðarmennsku standi á bak við svona samninga. Að slíkir flokkar kjósi að veita olíufélögum ívilnanir til uppbyggingar á húsnæðismarkaði og heimildir til aðilaskipta á lóðunum, með væntanlegum stórhagnaði. Hverjum er það til góða? Ekki þeim sem standa fyrir utan húsnæðismarkaðinn og komast hvergi inn. Hvernig er þetta að stuðla að jöfnuði? Hvergi er hann að sjá.

Þetta bókaði ég undir liðnum á fundinum:

Samkvæmt samningnum mun lóðarhafi ekki greiða til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um fækkun bensínstöðva. Það sama mun gilda um hinn nýja aðila, sem þó rekur ekki neinar bensínstöðvar. Borgarfulltrúi Sósíalista spyr sig hver hagnaður Skel fjárfestingarfélag hf verður af þessum aðilaskiptum.

Höfundur er borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×