Ísland gerði 1-1 jafntefli í öllum þremur leikjum sínum, gegn Frakklandi, Ítalíu og Belgíu, og endaði því með þrjú stig. Það dugði þó ekki til að komast áfram því Frakkar unnu tvo leiki og Belgar unnu svo leik sinn við Ítali í gær, 1-0, og fylgdu Frökkum í 8-liða úrslitin.
Auk Íslands og Frakklands voru það aðeins Englendingar, Þjóðverjar, Hollendingar og Svíar sem komust í gegnum riðlakeppnina án þess að tapa leik.
Ísland er eina liðið af þessum sex sem þarf að bíta í það súra epli að falla úr leik.
Þar að auki bendir tölfræðiveitan Squawka á þá staðreynd að Ísland er fyrsta liðið í sögu EM til þess að falla úr keppni þrátt fyrir að hafa ekki tapað einum einasta leik.
Iceland are the first ever side to be knocked out in the group stages of a single European Championship tournament while remaining unbeaten since the group stages were introduced:
— Squawka (@Squawka) July 18, 2022
1-1 vs Belgium
1-1 vs Italy
1-1 vs France
Not the record they would have wanted. pic.twitter.com/S7dThMPUnX
Þetta er met sem gerir lítið til að draga úr vonbrigðum Íslendinga, sem voru aðeins einu marki frá því að komast áfram í 8-liða úrslitin. Þannig hefði það dugað liðinu að skora annað mark gegn Frökkum en einnig hefði dugað að Ítalía hefði jafnað metin gegn Belgíu í hinum leik riðilsins.
Íslenska liðið getur þó státað sig af því að hafa náð að stöðva langa sigurgöngu Frakka sem höfðu unnið alla sína leiki frá því í apríl árið 2021, eða samtals 16 leiki.
Þess má geta að Ísland er ekki eina liðið í sögunni til að falla taplaust úr leik á stórmóti í fótbolta. Það gerðist að minnsta kosti einnig á HM karla árið 2010 þegar Nýja-Sjáland gerði jafntefli í öllum leikjum sínum í riðlakeppninni en féll úr leik.