Sport

Beið eftir helsta keppinautinum eftir fall en jók samt forskotið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jonas Vingegaard leiðir Tour de France.
Jonas Vingegaard leiðir Tour de France. Tim de Waele/Getty Images

Danski hjólreiðakappinn Jonas Vingegaard er nú með rúmlega þriggja mínútna forskot eftir átjánda legg Tour de France. Hann kom rétt rúmri mínútu á undan næsta manni, ríkjandi meistara Tadej Pogacar, í mark í dag, þrátt fyrir að hafa beðið eftir meistaranum.

Vingegaard hafði rúmlega tveggja mínútna forskot fyrir átjánda legginn sem hjólaður var í dag. Leggur dagsins var jafnframt seinasti fjallaleggurinn og nú eru aðeins þrír leggir eftir.

Þeir Vingegaard og Slóveninn Pogacar háðu harða baráttu í dag og fylgdust að lengi vel. Það er þó ekki hægt að segja að kappið hafi borið fegurðina ofurliði því Vingegaard sýndi af sér mikla prúðmennsku eftir að hann fór fram úr ríkjandi meistaranum.

Pogacar datt nefnilega í beygjunni sem Vingegaard nýtti sér til að fara fram úr honum. Í stað þess að nýta sér mistök Slóvenans hægði Vingegaard fljótlega á sér til að athuga hvort ekki væri örugglega í lagi með mótherja sinn.

Pogacar náði fremsta manninum fljótt og þeir félagarnir tókust í hendur áður en keppnin hófst fyrir alvöru á ný.

Eins og áður segir kom Vingegaard þó fyrstur í mark, rétt rúmri mínútu á undan Pogacar sem varð annar. Vingegaard hefur nú tæplega þriggja og hálfrar mínútu forskot fyrir seinustu þrjá leggina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×