Frá þessu greina fjölmiðlar vestanhafs en samkvæmt þeim hefur sakamálarannsókn á hegðun Trumps ekki verið opnuð formlega. Fyrirspurnir saksóknaranna um hegðun Trumps tengjast rannsóknum þeirra á áhlaupi stuðningsmanna hans á bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021, en það var tilraun þeirra til að koma í veg fyrir að sigur Joe Bidens, Bandaríkjaforseta, í kosningunum yrði staðfestur.
Trump hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir hegðun sína þennan dag en hann sendi mjög misvísandi skilaboð hvatti annars vegar stuðningsmenn sína áfram og hrósaði þeim og hvatti þá hins vegar til að halda sig hæga og standa við bakið á viðbragðsaðilum.
Samkvæmt fréttum frá Bandaríkjunum þýðir það eitt, að saksóknarar séu að spyrjast fyrir um hlutverk Trumps þennan dag, ekki að þeir muni enda á því að ákæra hann. Enginn bandarískur forseti hefur nokkurn tíma verið sakfelldur fyrir saknæmt athæfi.
Þessi rannsókn tengist þá ekki rannsókn öldungadeildarinnar, sem hefur verið sjónvarpað undanfarnar vikur, en sú hefur vakið mikla athygli og Trump hefur sagt hana pólitískar nornaveiðar.
Að sögn heimildamanna voru vitni spurð að því hvaða fyrirskipanir Trump hafi gefið til að koma í veg fyrir að bandaríska þingið staðfesti kosningasigur Bidens. Einhverjar spurninganna beindust þá að starfsmönnum Mike Pence, fyrrverandi varaforseta.
Hingað til hefur dómsmálaráðuneytið neitað að greina frá hvort það hyggist rannsaka aðild Trumps að atburðunum í janúar 2021.