Bæjarráð Garðabæjar samþykkti í vor að bjóða út skólamálsverðaþjónustu fyrir fimm grunnskóla, þrjá leikskóla og einn grunn- og leikskóla Garðabæjar fyrir tímabilið 2022-2025.

Í fréttatilkynningu á vef Garðabæjar kemur fram að tilboð frá þremur aðilum hefðu borist eftir útboðið. Þar af hefðu tveir aðilar skilað tilboði í alla hluta útboðsins og einn í þrjá hluta þess.
Niðurstaða bæjarráðs var að ganga til samninga við tvo aðila, Matartímann og Skólamat, sem buðu lægst.
Við yfirferð tilboða var, samkvæmt tilkynningunni, tekið tillit til næringarinnihalds, samsetningar máltíða, eldunaraðferða og hvort tekið væri mið af opinberum ráðleggingum Embættis landlæknis.
Samningur við nýja og gamla samstarfsaðila
Garðabær gerir samning við Matartímann um mat í skóla bæjarins í fyrsta sinn en í tilkynningunni kemur fram að Matartíminn sé fyrirtæki í eigu Sölufélags garðyrkjumanna sem sérhæfi sig í þjónustu við mötuneyti með áherslu á leik- og grunnskóla.
Frá 2022 til 2025 verða máltíðir Matartímans í grunnskólunum Flataskóla, Garðaskóla, Sjálandsskóla og Urriðaholtsskóla og í leikskólunum Mánahvoli og Bæjarbóli.
Skólamatur hefur áður séð um skólamálsverði í grunnskólum Garðabæjar en næstu þrjú árin verða máltíðir frá Skólamat í grunnskólunum Hofsstaðaskóla og Álftanesskóla og leikskólanum Sunnuhvoli.