Í Fréttablaðinu í dag var haft eftir heimildum blaðsins að utanríkisríkisráðuneytið hefði farið fram á að langur viðlegukantur fyrir NATO yrði reistur norðan megin í Finnafirði við bæinn Gunnólfsvík.
Þar myndi NATO hafa aðstöðu til að birgja skip sín og hvíla áhafnir. Þá myndi Landhelgisgæslan einnig fá aðstöðu á svæðinu.
„Engin áform eru um uppbyggingu varnarmannvirkja í Finnafirði og engar beiðnir, hvorki formlegar né óformlegar, hafa verið lagðar fram af hálfu utanríkisráðuneytisins og staðhæfingar um beiðni Atlantshafsbandalagsins eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Fréttin er því röng,“ segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins.
Einfalt hefði verið að svara spurningum blaðamanns
Í frétt Fréttablaðsins segir að ekki hafi fengist svör við fyrirspurnum blaðsins hjá ráðuneytinu.
„Blaðamaður hafði samband við fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins sem er í sumarfríi erlendis og var vísað á staðgengil. Blaðamaður hafði ekki samband við staðgengil eða neinn hjá ráðuneytinu til þess að leita staðfestingar á þeim röngu upplýsingum sem hann byggði skrif sín á. Er þetta miður þar sem einfalt hefði verið að koma á framfæri upplýsingum og svara fyrirspurnum um málið,“ segir í yfirlýsingunni.