Þetta staðfestir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu.
„Þetta lítur út fyrir að vera eldur í einhverjum mosa, og engin kvika sjáanleg,“ segir Sigríður.
Hún segir engann gosóróa þá vera að mælast á svæðinu. Hins vegar liggi ekki fyrir hvers vegna eldur kom upp í gróðri á svæðinu.
„Nei, það er ennþá aðeins að vefjast fyrir okkur.“
Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið við Fagradalsfjall og víðar á Reykjanesskaga, en líkt og flestum er í fersku minni gaus í Fagradalsfjalli í mars á síðasta ári. Undanfari eldgossins var mikil jarðskjálftavirkni á svæðinu, ekki ósvipuð þeirri sem riðið hefur yfir að undanförnu.
Fyrr í dag greindi Veðurstofan frá því að kvika væri á um eins kílómetra dýpi undir jarðskorpunni. Miklar líkur væru á eldgosi á næstu dögum eða vikum.
Fréttin var uppfærð klukkan 01:47, eftir að Veðurstofan hafði fengið upplýsingar frá Landhelgisgæslunni um aðstæður á svæðinu.