Erlent

Mjaldurinn í Signu svæfður eftir um­fangs­miklar björgunar­að­­gerðir

Eiður Þór Árnason skrifar
Mjaldurinn vakti mikla athygli á meðan hann svamlaði um í Signu.
Mjaldurinn vakti mikla athygli á meðan hann svamlaði um í Signu. Ap/Aurelien Morissard

Vannærður mjaldur sem fastur var í ánni Signu í rúma viku var fluttur þaðan í gær í umfangsmiklum björgunaraðgerðum. Til stóð að færa hvalinn í saltvatnstank í Normandí til að bjarga lífi hans en í dag var greint frá því að mjaldurinn hafi drepist á leiðinni.  

Þetta segja frönsk yfirvöld en það tók yfir áttatíu manns sex klukkustundir að hífa dýrið upp úr ánni í gær. Eftir það voru framkvæmdar ýmsar heilsufarsmælingar og segja dýraverndunarsamtökin Sea Shepherd France að mjaldurinn hafi verið hættulega magur og ekki með neina virkni í meltingarvegi. 

Dýraverndunarsinnar höfðu reynt að fá hvalinn, sem var um sjötíu kílómetra norður af París, til að gæða sér á fiski frá því á föstudag án árangurs.

Fram kemur í frétt CNN að vísindamenn haft miklar áhyggjur af þyngdartapi mjaldursins og svæft hann skömmu síðar. Að sögn Florence Ollivet-Courtois, dýralæknis hjá slökkviliðinu í Essonne, sáu dýralæknar að heilsu mjaldursins hafi hrakað á meðan ferðalaginu stóð og hann meðal annars átt erfitt með öndun.

„Dýrið var greinilega að þjást og við ákváðum að það væri tilgangslaust að sleppa því aftur svo við þurftum að svæfa það.“ 

Sea Sheperd France greindi áður frá því að um væri að ræða karldýr með enga þekkta smitsjúkdóma og að dýralæknar ætluðu að reyna að koma meltingu dýrsins í samt horf. Til stóð að flytja 800 kílóa dýrið um 160 kílómetra með kælitrukki að strönd hafnarbæjarins Ouistreham í norðausturhluta Frakklands.

Yfirvöld ætluðu að hafa fjögurra metra langan mjaldurinn í saltvatnstanki í tvo til þrjá daga og á sama tíma og náið yrði fylgst með heilsu hans og honum veitt læknismeðferð. Að því loknu átti að draga mjaldurinn aftur út á sjó.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að fregnir bárust af því að mjaldurinn hafi verið svæfður.


Tengdar fréttir

Mjaldurinn í ánni Signu enn í vanda staddur

Vannærður mjaldur fannst í ánni Signu nú á þriðjudag en mjaldurinn hefur neitað að borða þá fæðu sem honum hefur verið gefin og hefur vísindafólk á svæðinu miklar áhyggjur af heilsu hans. Líkurnar á því að hann komist aftur á sínar heimaslóðir séu hverfandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×