Erlent

Að minnsta kosti 41 látinn eftir kirkjubruna í Kairó

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Mynd innan úr Abu Sefein kirkju sem sýnir afleiðingar brunans.
Mynd innan úr Abu Sefein kirkju sem sýnir afleiðingar brunans. AP/Tarek Wajeh

Að minnsta kosti 41 er látinn eftir að eldur kviknaði í Abu Sefein kirkju í Giza á stórhöfuðborgarsvæði Kairó í Egyptalandi í morgun. Meðal hinna látnu eru tíu börn og þar að auki eru sextán slasaðir eftir brunann.

Abu Sefein kirkja er staðsett í þröngri götu í Imbaba-hverfi, einu fjölmennasta hverfi Giza-borgar sem er á stórhöfuðborgarsvæði Kairó, og var hún troðfull af fólki þegar eldur kviknaði í morgunmessu klukkan níu að staðartíma í morgun. 

Að sögn innanríkisráðuneytis Egyptalands er talið að eldurinn hafi kviknað út frá skammhlaupi í loftræstingarkerfi kirkjunnar.

Þá segir einnig í tilkynningu ráðuneytisins að flestir hinna látnu hafi látist vegna reykeitrunar eftir að þeir festust inni í kirkjunni. Einnig reyndi fjöldi fólks að hoppa af efri hæðum kirkjunnar til að komast undan eldinum.

Bruninn er einn sá mannskæðasti í Egyptalandi í fjölda ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×