Um helgina var nóg að gera í bænum og gleðin var við völd, þar á meðal á Lebowski bar. Staðurinn var pakkfullur á laugardaginn þegar einhver mætti inn með prumpufýlusprengju og þegar lyktin tók yfir staðinn yfirgáfu hann allir og fóru út á götu.
„Þetta hefur ekki komið áður fyrir hjá okkur en við höfum heyrt að aðrir staðir hafi lent í þessu, aðallega fyrir Covid. Þetta getur verið alveg agalegt. Þetta er tjón upp á gríðarlegar upphæðir. Við ætlum að gera allt í okkar valdi til að ná í þessa aðila,“ segir Arnar Þór Gíslason, einn eigenda Lebowski, í samtali við fréttastofu.
Lebowski var ekki eini staðurinn sem lenti í þessu um helgina og nú er verið að bera saman myndbönd frá Lebowski við myndbönd frá öðrum stöðum.
„Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem skemmtistaður lendir í þessu en sem betur fer náðum við að lofta vel út. Þetta eru leiðinda dúddar sem eru að standa í þessu,“ segir Arnar. Hann segist vera með nokkra grunaða.
Hann hvetur þá sem bera ábyrgð á þessu að sleppa því að gera þetta og leyfa fólki að skemmta sér.
„Það er gleði í fólki og við erum á fullu að undirbúa Menningarnótt og hvetjum flesta til að koma þá. Það er allt í blússandi gír og við erum að gera allt sem við getum til að gleðja landann og túristann. Keyra partýið í gang. Leiðindaatriði þegar svona aðilar halda að þetta sé fyndið og skemma fyrir öðrum,“ segir Arnar að lokum.