Fótbolti

Alexandra komin til Fiorentina

Sindri Sverrisson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir er orðin leikmaður Fiorentina og spilar því í fjólubláu næstu misseri.
Alexandra Jóhannsdóttir er orðin leikmaður Fiorentina og spilar því í fjólubláu næstu misseri. ACF Fiorentina

Ítalska knattspyrnufélagið Fiorentina staðfesti í dag komu landsliðskonunnar Alexöndru Jóhannsdóttur sem mun spila með liðinu í vetur.

Samningur Alexöndru við Fiorentina gildir til 30. júní 2024. Hún kemur til Flórens eftir að hafa losnað undan samningi hjá þýska félaginu Frankfurt.

Þessi 22 ára miðjumaður heldur þannig áfram að feta svipaða slóð og Sara Björk Gunnarsdóttir, sem fyrr í sumar gekk í raðir Juventus. Báðar ólust þær upp hjá Haukum, fóru þaðan til Breiðabliks og svo út í atvinnumennsku en Alexandra skrifaði undir samning við Frankfurt í ársbyrjun 2021.

Alexandra, sem á að baki 26 A-landsleiki, var aðeins einu sinni í byrjunarliði Frankfurt í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð og fór að láni til Breiðabliks í maí til að komast í leikform fyrir Evrópumótið í sumar.

Fiorentina endaði í 7. sæti af tólf liðum í ítölsku A-deildinni á síðustu leiktíð. Liðið byrjar nýja leiktíð á útileik gegn AC Milan næsta sunnudag.

Alexandra er á sínum stað í íslenska landsliðshópnum sem kemur saman von bráðar vegna leikjanna við Hvíta-Rússland og Holland 2. og 6. september - síðustu leikjanna í undankeppni HM. Ísland berst þar við Holland um öruggt sæti í lokakeppni HM sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×