Það þarf ekki að segja borgarbúum það að sumarið hafi ekki verið það besta á svæðinu, hiti varla komist yfir fimmtán gráðurnar og sólin vart skinið. Veitingamenn í Nauthólsvíkinni hafa fundið vel fyrir áhrifum þessa lítt skemmtilega veðurs í sumar.
„Það mætti hafa verið betra veður á þessu svæði. Ef það er sól þá er alla vega rok líka en aðallega hefur verið rigning og rok í allt sumar,“ segir Ómar Vilhelmsson veitingastjóri Braggans í Nauthólsvík.
Veðrið hafi haft áhrif á viðskipti hjá þeim í sumar.
„Við þurfum að treysta á að það sé gott veður á sumrin hérna. Við erum í nálægð við háskólann en hann er ekki í gangi á sumrin, þá treystum við á sólarblíðuna og Nauthólsvíkina. Í sumar hefur það ekki verið upp á marga fiska,“ segir Ómar.
Færri hafi lagt leið sína í víkina í sumar.
„Já, það má segja það,“ segir Ómar.
„Það er búið að vera sólríkt í dag og stanslaus traffík en það hefur ekki verið nein geðveiki eins og maður myndi kannski vilja og vonast eftir á svona degi. Skólarnir setja strik í reikninginn og rokið sem hrjáir okkur.“
Hann voni að veðrið leiki við þau út mánuðinn.
„Maí var þokkalegur, eigum við ekki að vona að seinni hlutinn af sumrinu verði líka þokkalegur. Ég sagði þetta reyndar líka síðasta sumar, það var ekki gott, þannig að við skulum vona að næsta sumar verði geggjað. Er ekki alltaf ár eftir þetta ár?“