Fótbolti

„Erfiðasta símtal sem ég hef átt“

Sindri Sverrisson skrifar
María Þórisdóttir var í liði Noregs á EM í Englandi en fær ekki að spila næstu leiki liðsins.
María Þórisdóttir var í liði Noregs á EM í Englandi en fær ekki að spila næstu leiki liðsins. Getty/Marcio Machado

María Þórisdóttir er í öngum sínum eftir valið á norska landsliðshópnum í fótbolta fyrir komandi leiki í undankeppni HM.

María, sem er 29 ára gömul, á að baki 63 A-landsleiki og var í byrjunarliði Noregs þegar liðið hóf keppni á EM í Englandi fyrr í sumar. 

Í gær var hins vegar ekki einu sinni pláss fyrir hana í 22 manna landsliðshópi sem Hege Riise, nýr landsliðsþjálfari, valdi fyrir komandi leiki við Belgíu og Albaníu.

María er miðvörður Manchester United og íslensk í aðra ættina því hún er dóttir handboltaþjálfarans Þóris Hergeirssonar. Hún fór ekki í grafgötur með það hve erfitt hefði verið að kyngja því að hún hefði ekki verið valin í landsliðið:

„Það er ekkert launungarmál að þetta er versta símtal sem ég hef átt,“ sagði María við TV 2.

„Ég er ótrúlega svekkt og þetta er afskaplega sárt. Það hefur ofboðslega mikla þýðingu fyrir mig að spila fyrir Noreg og ég vil meina að ég hafi eitthvað fram að færa fyrir landsliðið,“ sagði María.

Vilde Bøe Risa, samherji Maríu hjá United, er heldur ekki í norska hópnum og alls var fimm leikmönnum skipt út frá því á EM í sumar.

Evrópumótið var mikil vonbrigði fyrir Noreg en liðið féll þar úr leik í riðlakeppninni eftir að hafa meðal annars tapað 8-0 fyrir verðandi Evrópumeisturum Englands. Það gæti nú hafa verið síðasti landsleikur Maríu á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×