Erlent

Flug­menn Air France í straff eftir átök í flug­stjórnar­klefa

Atli Ísleifsson skrifar
Forsvarsmenn Air France segjast munu ráðast í öryggisúttekt sem svar við skýrslu franskra flugmálayfirvalda.
Forsvarsmenn Air France segjast munu ráðast í öryggisúttekt sem svar við skýrslu franskra flugmálayfirvalda. Getty

Tveimur flugmönnum hjá franska flugfélaginu Air France hefur tímabundið verið vikið frá störfum eftir að til átaka kom milli þeirra inni í flugstjórnarklefanum í miðju flugi.

Atvikið átti sér stað í flugi milli Parísar og Genf í júní síðastliðinn. Svissneska blaðið La Tribune segir frá því að flugmennirnir hafi byrjað að deila strax eftir flugtak þar sem þeir gripu meðal annars í kraga hvors annars og annar þeirra sló svo til hins.

Svo fór að aðrir í áhöfn vélarinnar þurfti að stökkva til og stía þeim í sundur. Þá var málum þannig háttað að einn í áhöfninni varði restinni af fluginu inni í flugstjórnarklefanum með flugmönnunum allt þar til að vélinni var lent í Genf.

Upp komst um átökin eftir að skýrsla franskra flugmálayfirvalda (BEA) var birt þar sem fram kom að flugmenn Air France fylgi ekki reglum með fullnægjandi hætti þegar öryggi er ógnað.

Í skýrslunni er einnig dregið fram atvik þar sem eldsneyti lak úr flugvélinni í flugi milli Brazzaville í Austur-Kongó og Parísar. Gera reglur ráð fyrir að flugmenn eigi að lenda vélinni eins fljótt og auðið er og slökkva svo á vélinni, en þess í stað ákváðu flugmennirnir að fljúga lengra, framhjá flugvöllum þar sem hefði verið hægt að lenda, og lenda vélinni í Tsjad.

Forsvarsmenn Air France hafa nú boðað að ráðist verði í öryggisúttekt hjá félaginu sem svar við skýrslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×