Fótbolti

„Við erum aldrei að fara að falla úr þessari deild“

Atli Arason skrifar
Atli Jónasson, markvörður Leiknis.
Atli Jónasson, markvörður Leiknis. Sigurjón

Atli Jónasson, markvörður Leiknis, lék í gær sinn fyrsta leik í efstu deild í 13 ár þegar Leiknir og Breiðablik áttust við í 19. umferð Bestu-deildar karla.

Breiðablik vann leikinn 4-0 sem gerir að verkum að Leiknir er eitt í neðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti.

„Númer eitt tvö og þrjú er það pirrandi fyrir okkur í Leikni að tapa þessum leik þó hann hafi verið erfiður. Það er nóg framundan en það gleymist að ég er í liði. Við ætlum bara að halda áfram að berjast en við erum aldrei að fara að falla úr þessari deild,“ sagði Atli í viðtali við Stöð 2 í dag.

Atli kom óvænt inn í liðið eftir að aðalmarkvörður liðsins, Viktor Freyr Sigurðsson, gat ekki tekið þátt vegna meiðsla. Atli kom samt ágætlega frá leiknum þar sem hann varði meðal annars vítaspyrnu frá Höskuldi Gunnlaugssyni, leikmanni Breiðabliks, á 45. mínútu.

„Ég vissi hvert hann var að fara að skjóta um leið og hann setti boltann á punktinn. Ég ætla ekki að segja hvernig ég vissi það en ég vissi það í svona korter, hvert hann ætlaði að skjóta,“ svaraði Atli aðspurður út í vítaspyrnuna.

Síðasti leikur sem Atli lék í efstu deild var með KR gegn Val í júlí 2009. Atli er 35 ára gamall en hann vildi ekki gefa upp hvort hann myndi spila áfram með Leikni á næsta tímabili.

„Á næsta ári?“ Spurði Atli hissa á móti áður en hann bætti við.

„Við verðum bara að fá að skoða það,“ sagði Atli Jónasson, markvörður Leiknis, með bros á vör. Viðtalið við Atla í heild má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Spilaði síðast í efstu deild 2009 en varði víti gegn topp­liðinu á sunnu­dag

Atli Jónasson stóð óvænt í marki Leiknis Reykjavíkur er liðið heimsótti Breiðablik, topplið Bestu deildar karla í fótbolta, á sunnudagskvöld. Toppliðið vann vissulega öruggan sigur en Atli, sem var að spila aðeins sinn annan leik í efstu deild, stóð sig með prýði og varði meðal annars vítaspyrnu frá Höskuldi Gunnlaugssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×