Fótbolti

„Mjög gaman og næs“

Sindri Sverrisson skrifar
Ásdís Karen Halldórsdóttir spjallaði við Helenu Ólafsdóttur í Laugardalnum í dag.
Ásdís Karen Halldórsdóttir spjallaði við Helenu Ólafsdóttur í Laugardalnum í dag. Stöð 2

Bikarhetja Valsara, Ásdís Karen Halldórsdóttir, hafði aldrei spilað á Laugardalsvelli fyrir síðasta laugardag þegar hún skoraði sigurmark Vals í 2-1 sigri á Breiðabliki í bikarúrslitaleik. Nú er hún mætt aftur vegna komandi landsleikja.

Ásdís Karen er í íslenska landsliðshópnum sem undirbýr sig fyrir leikina við Hvíta-Rússland á föstudag og gegn Hollandi ytra á þriðjudag, í lokaleikjunum í undankeppni HM, og gæti því spilað sinn fyrsta mótsleik fyrir A-landsliðið.

Síðustu dagar hafa því verið draumi líkastar fyrir þennan 22 ára, sóknarsinnaða miðjumann:

„Það er ótrúlega gaman að fá kallið í landsliðið. Þetta er eitthvað sem maður er búinn að stefna að í einhvern tíma og hafa bakvið eyrað, svo það var mjög gaman,“ sagði Ásdís Karen.

Klippa: Ásdís Karen mætt strax aftur á Laugardalsvöll

Hún kemur inn í landsliðshóp sem hefur verið nokkuð lengi saman en er vel tekið: „Það er mjög gaman og næs. Það eru allir ótrúlega næs og „welcoming“ við mig,“ sagði Ásdís. En reiknar hún með að fá að spila í leikjunum framundan?

„Ég veit það ekki. Það er ekki undir mér komið. Það væri auðvitað mjög gaman en svo er maður líka bara að njóta þess að vera hérna og nýta tækifærið. Maður sér bara til.“

Ísland mætir Hvíta-Rússlandi á Laugardalsvelli á föstudag klukkan 17:30 (miðasala á tix.is) og spilar svo gegn Hollandi ytra næsta þriðjudagskvöld, í síðustu leikjum sínum í undankeppni HM 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×