í vikunni var haldinn opinn samráðsfundur á Selfossi um stöðu mannréttinda en forsætisráðherra boðaði til fundarins, sem bar yfirskriftina „Mótum framtíðina saman“ en nokkrir slíkir fundir verða haldnir víða um land. Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna þroskahjálpar flutti örerindi um stöðu fatlaðra þegar mannréttindi eru annars vegar. Rafræn skilríki og fatlað fólk kom þar við sögu.
“Þetta er alveg fáránlegt að geta ekki nálgast upplýsingar um reikninginn sinn, borga reikninga eða komast inn á Heilsuveru, endurnýja lyfin sín, þetta er bara svo margt. Þú ert ekkert fúnkerandi í samfélaginu ef þú ert ekki með rafræn skilríki, þannig að þetta er verulega mikil útilokun, hér er klárlega verið að brjóta mannréttindi,” segir Unnur Helga.
“Við berjumst áfram og látum í okkur heyra eins og ég er að gera núna”, bætir Unnur Helga við.

Unnur Helga segir að stjórnvöld verði að bregast strax við málinu um rafrænu skilríkin og fatlað fólk, þau hafi vitað af þessu lengi og dregið lappirnar allt of lengi. Nú dugi ekki fleiri afsakanir. Þessi framkvæmd sé skýlaust brot á mannréttindum fatlað fólks og fer í bága við mörg ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlað fólks.
„Þetta er í rauninni aðallega fyrir þá, sem eru 18 ára og eldri en samt sem áður, þú þarft að nota rafræn skilríki til að komast inn á Heilsuveru, þá verður þú að vera orðin 16 ára,“ segir Unnur Helga.
