Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að bæði einkennis- og óeinkennisklæddir lögreglumenn verði á staðnum. Þá hefur viðbúnaður verið settur á fjórða stig og lokað verður fyrir bílaumferð víða auk þess sem flugumferð verður óheimil yfir miðborginni. Það á einnig við um dróna.
Tveir féllu í skotárás á skemmtistað hinsegin fólks ímiðborg Oslóar í júní og fjöldi særðist. Skotárásin var gerð 24. júní, kvöldið áður en Osló Pride átti að fara fram og var hátíðin því blásin af. Árásarmaðurinn, sem heitir Zaniar Matapour, var handtekinn á vettvangi árásarinnar.
Emelie Enger Mehl dómsmálaráðherra, Masud Gharahkhani forseti þingsins, Anette Trettebergstuen menningar- og jafnréttismálaráðherra og Abid Raja þingmaður munu taka þátt í hátíðarhöldunum í dag samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins.
Gestir og þátttakendur munu byrja á að koma saman í Kontraskjæret klukkan þrjú að staðartíma þar sem fram mun fara minningarathöfn. Jonas Gahr Støre forsætisráðherra og Gharahkhani þingforseti munu flytja þar ávarp.