„Samkynhneigður drengur fékk ítrekað skilaboð um að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig. Móðir hans hafði samband við foreldra geranda sem annað hvort sögðu að þau réðu ekkert við börnin sín eða könnuðust ekki við að börn þeirra gætu hegðað sér svona.“

Svona hljóðar ein saga sem fjallað er um í kynningu Hrefnu Þórarinsdóttur, forstöðukonu Hinsegin félagsmiðstöðvar Samtakanna 78 og Tjarnarinnar, um stöðu hinsegin barna og ungmenna á Íslandi í dag.
Kynningin var sýnd meðlimum Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar í síðustu viku.
Í kjölfar þess lýsti ráðið yfir miklum áhyggjum á stöðu hinsegin barna og ungmenna í borginni.
Ráðið telur mikilvægt að gripið verði til tafarlausra aðgerða til að vera börnin og tryggja réttindi þeirra og velferð.

Ráðið sendi ályktun á skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar með það að markmiði að ráðið grípi hratt og vel til viðeigandi ráðstafanna. Þá er ráðið hvatt til þess að fá sömu kynningu frá Hrefnu.
Í kynningunni segir að aðkastið eigi sér stað nánast hvert sem börnin fara, í skólanum, í félagsmiðstöðvum, almenningssamgöngum, verslunarmiðstöðvum og samfélagsmiðlum.
Rúmlega helmingur upplifir vanlíðan
Í könnun frá árinu 2018 kemur fram að 53 prósent hinsegin nemenda segja niðrandi ummæli um hinsegin fólk hafi mikil eða mjög mikil áhrif á líðan þeirra. Þá segist tæplega þriðjungur hinsegin nemenda verða fyrir munnlegri áreitni.
Inngrip samnemenda, kennara og annars starfsfólk er ekki mikið samkvæmt könnuninni, rúmlega 45 prósent nemenda segja kennara aldrei grípa inn í þegar niðrandi orðfæri er notað í þeirra viðurvist. Einungis átján prósent segja kennara gera það alltaf eða oftast.
