Fótbolti

Rooney tók meintan rasista af velli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney tók við DC United í júlí.
Wayne Rooney tók við DC United í júlí. getty/Andrew Katsampes

Wayne Rooney, þjálfari DC United í MLS-deildinni í fótbolta, tók leikmann liðsins af velli í leik gegn Inter Miami í gær eftir að hann var sakaður um að hafa beitt andstæðing kynþáttaníði.

Taxi Fountas, leikmaður DC United, er sakaður um að hafa nota n-orðið um Damian Lowe, jamaískan leikmann Inter Miami eftir að þeim lenti saman. Í kjölfarið varð fjandinn laus. Phil Neville, þjálfari Inter Miami, ræddi við leikmenn sína og hvort þeir vildu halda leik áfram sem og þeir gerðu.

Rooney tók síðan Fountas af velli. Neville hrósaði fyrrverandi samherja sínum hjá Manchester United og sagði að virðing sín fyrir honum hefði aukist.

„Ég verð að hrósa dómaranum fyrir hvernig hann höndlaði mjög erfiða stöðu. Hann fylgdi reglum MLS og ég ber mikla virðingu fyrir því hvernig Wayne Rooney tók á þessu,“ sagði Neville.

„Þetta jók virðingu mína fyrir honum, miklu meira en nokkurt mark sem hann skoraði. Leikmenn voru sorgmæddir og leiðir.“

MLS-deildin hefur nú hafið rannsókn á málinu. Ef Fountas, sem skoraði í leiknum, verður fundinn sekur er hann væntanlega á leið í langt bann.

Inter Miami vann leikinn með þremur mörkum gegn tveimur. Liðið er í 7. sæti Austurdeildarinnar en DC United í því fjórtánda og neðsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×