Fótbolti

Heimir: Hemmi var hugrakkur að fara inn í mótið með þennan hóp

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Heimi líst vel á framhaldið hjá ÍBV.
Heimi líst vel á framhaldið hjá ÍBV. vísir/getty

Heimir Hallgrímsson kom þjálfara ÍBV, Hermanni Hreiðarssyni, til aðstoðar eftir hörmungarbyrjun Eyjamanna í Bestu-deildinni en þeir unnu ekki leik fyrr en í 13. umferð. Eftir komu Heimis á bekkinn skánaði gengi liðsins mikið.

Sjálfur vill Heimir ekki gera mikið úr sínum hlut.

„Ég hef í rauninni ekki skipt mér mikið af þessu. Ég þekki auðvitað vel til í Eyjum og veit hvernig það er fyrir þjálfara þegar illa gengur á svona litlum stað. Það hverfa ansi margir og snúa við þér baki. Þá er það „þeir" eru svo lélegir í stað þess að „við séum svo góðir“,“ segir Heimir léttur í spjalli við Vísi frá Jamaíka þar sem hann er nýtekinn við sem landsliðsþjálfari.

„Ég sagði við Hemma að ég myndi hjálpa honum ef hann gæti eitthvað notað mig. Það var nú ekki mikið. Ég reyndi að veita honum stuðning og peppa hann upp.“

Heimir segir að staðan hjá ÍBV hafi ekki verið gæfuleg er liðið lagði af stað inn í mótið.

„Það er flott umgjörð og góður hópur í liðinu núna. Ekki stór hópur og kannski ekki sá þekktasti. Mér fannst Hemmi hugrakkur að fara inn í mótið með þann hóp sem hann hafði. Ég tala nú ekki um þegar farið var að ganga illa að hann leyfði Guðjóni Pétri að fara til Grindavíkur á sama tíma og liðið missti tvo stráka til Bandaríkjanna. Að taka engann í staðinn var enn hugrakkara.

„Fáir þjálfarar hefðu spilað þetta svona en það hefur verið ansi gott gengi og góður bragur á öllu. Það er kraftur, gleði og sjálfstraust í liðinu. Þannig viljum við Vestmannaeyingar hafa liðið okkar.“


Tengdar fréttir

Heimir Hallgrímsson á varamannabekk ÍBV

Fyrrum landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson er mættur til Vestmannaeyja. Heimir er á varamannabekk ÍBV í leik liðsins gegn Víkingi sem nú stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×