Fótbolti

Enginn vafi um Söru Björk en algjör óvissa um Karólínu

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir tók enga sénsa í vikunni þegar Juventus spilaði í Meistaradeild Evrópu. Hún verður með Íslandi í umspilsleiknum 11. október þegar það ræðst hvort Ísland kemst á HM í fyrsta sinn.
Sara Björk Gunnarsdóttir tók enga sénsa í vikunni þegar Juventus spilaði í Meistaradeild Evrópu. Hún verður með Íslandi í umspilsleiknum 11. október þegar það ræðst hvort Ísland kemst á HM í fyrsta sinn. Getty/Jonathan Moscrop

Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir er klár í slaginn með Íslandi í umspilinu um sæti á HM sem fram fer næsta sumar. Algjör óvissa ríkir hins vegar um bataferlið hjá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Sara Björk missti af síðasta leik með Juventus, þegar liðið mætti Köge í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn. Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari sagði hins vegar á blaðamannafundi í dag að það hefði ekki verið vegna neinna alvarlegra meiðsla, heldur hefði aðeins verið um varúðarráðstafanir að ræða.

„Hún var búin að vera eitthvað stíf fyrir leikinn og fann að hún yrði ekki klár. Það var ákveðið að taka ekki neina áhættu á að þetta yrði verra. Hún er klár,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í dag.

Ísland verður hins vegar án Karólínu Leu í umspilsleiknum, sem verður við Portúgal eða Belgíu 11. október. Karólína hefur í heilt ár glímt við meiðsli aftan í læri og sinnir sinni endurhæfingu hjá Bayern München en batinn hefur verið hægur.

„Ég get í rauninni ekkert svarað um það hvenær Karólína verður tilbúin, og Bayern ekki heldur. Þetta er í einhverju ferli og engin tímalína á þessu, þó að menn hafi vonast eftir því að þetta yrði bara sex vikna dæmi. Það kom strax í ljós að þetta yrði lengra en það. Bayern hefur ekki hugmynd um það hvenær hún verður klár og ég ekki heldur,“ sagði Þorsteinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×