Í tilkynningu til Kauphallar segir að verðmæti eigna félagsins séu 88,5 milljónir evra, en verðmæti kvóta miðist við markaðsverð í dag og óháðu mati skipasala á Sólborgu RE. ÚR festi kaup á frystitogaranum Sólborgu fyrir um ári, en togarinn hét þá Tasermiut var áður í eigu Arctic Prime Fisheries á Grænlandi. Togarinn var smíðaður árið 1988, er 76 metra langur og 13,2 metrar á breidd.
Í tilkynningunni segir að skuldir RE 27 ehf. hjá viðskiptabanka nemi 81,5 milljónum evra og muni Brim yfirtaka þær. Kaupverð félagsins sé því sjö milljónir evra sem verði greiddar við frágang viðskipta og eftir að búið sé að uppfylla hefðbundna fyrirvara.

„Keyptar veiðiheimildir á Íslandsmiðum eru 5.84% aflahlutdeild í loðnu, 3.39% í makríl, 11.42% í gulllaxi og 16.86% af þorskveiðikvóta Íslendinga í Barentshafi. Aflaheimildir í loðnu eru ekki komnar til úthlutunar á þessu ári og heimildir til þorskveiða í Barentshafi eru ekki taldar með í heildaraflaheimildum og því eykur viðbótarkvótinn í makríl og gulllaxi aflaheimildir Brims úr 11.56% af heildarþorskígildistonnum í 11.82%. Ekki er komin úthlutun í loðnu fyrir þetta fiskveiðiár og þar af leiðandi er loðnan 0 þorskígildi í dag. Á síðasta ári fóru heildaraflaheimildir Brims í 14.19% við mikla úthlutun á loðnukvóta, þá var ígildisstuðullinn 0,36 í loðnu en er fyrir þetta fiskveiðiár 0,11.
Markmið þessara viðskipta er að efla uppsjávarsvið Brims og styrkja uppsjávarvinnslu félagsins á Vopnafirði. Þá eykur félagið getu sína til veiða á Norðurslóðum. Á undanförnum árum hefur Brim fjárfest í auknum aflaheimildum m.a. með kaupum á félögunum Ögurvík í Reykjavik og Kambi í Hafnarfirði og hafa þau viðskipti bætt afkomu félagsins til muna og aukið arðsemi rekstrarins.
Útgerðarfélag Reykjavíkur er eigandi að 43,97% af hlutafé í Brimi hf. og er eigandi félagsins, Guðmundur Kristjánsson, jafnframt forstjóri Brims,“ segir í tilkynningunni.