Íslenski boltinn

Ísak Snær við það að feta í fót­spor Kristals Mána

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Snær í leik íslenska U-21 árs landsliðsins við Tékkland í kvöld.
Ísak Snær í leik íslenska U-21 árs landsliðsins við Tékkland í kvöld. Vísir/Diego

Það stefnir allt í að Ísak Snær Þorvaldsson, leikmaður Breiðabliks, verði samherji Kristals Mána Ingasonar hjá norska liðinu Rosenborg fyrr heldur en síðar.

Kristall Máni og Ísak Snær voru tveir heitustu leikmennirnir í upphafi sumars en Kristall Máni yfirgaf Íslands- og bikarmeistara Víkings í félagaskiptaglugganum í sumar á meðan Ísak Snær var áfram í Kópavoginum og stefnir nú allt til þess að hann verði Íslandsmeistari með Breiðabliki.

Norski miðillinn Nettavisen greindi frá því fyrr í dag, föstudag, að Ísak Snær væri á óskalista Rosenborg fyrir næsta tímabil. Í frétt norska miðilsins er greint frá því að viðræður Breiðabliks og Rosenborgar væru komnar á lokastig. Liðið er sem stendur í 3. sæti, aðeins stigi á eftir Lilleström sem er í 2. sæti með 44 stig. Það eru þó 14 stig í topplið Molde.

Ísak Snær sjálfur staðfesti þetta svo í viðtali við Fótbolti.net eftir leik U-21 árs landsliðs Íslands og Tékklands í umspili um sæti á EM í kvöld.

„Ég veit að viðræðurnar við Rosenborg eru komnar mjög langt, en eins og staðan er núna þá er ég ekkert að pæla í því. Tímabilið með Breiðabliki er enn í gangi og ég er bara að einbeita mér að klára það,“ sagði Ísak Snær um möguleg vistaskipti sín.

Þá játti hann því að það yrði mjög gaman að spila með Kristali Mána. Sá var fjarri góðu gamni vegna meiðsla þegar U-21 tapaði naumlega gegn Tékklandi í kvöld á meðan Ísak Snær spilaði 68 mínútur.

Ísak Snær hefur alls skorað 17 mörk í öllum keppnum í sumar og lagt upp átta til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×