Skoðun

Er fast­eignin þín rétt skráð hjá Þjóð­skrá?

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Þess eru staðfest dæmi um að við gerð fasteignamats 2023 hafi Þjóðskrá Íslands tekið fram fyrir hendur byggingarfulltrúa sveitarfélaga og skráð nýbyggingar á hærra matsstig en þær eru í raun. Með þeim verknaði fór Þjóðskrá Íslands gegn skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Í þeim lögum kemur skýrt fram að það sé hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags fyrir sig að sjá um slíkar skráningar. Byggingarfulltrúinn lætur svo Þjóðskrá þær upplýsingar í té. Og það kemur meira að segja fram á heimasíðu Þjóðskrár að svo eigi verklagið að vera.

Hvað þýðir hærra skráð matsstig fasteignar?

Í stuttu máli þýðir hærra skráð matsstig hærra fasteignamat fasteignar og þar með hærri fasteignagjöld og erfðafjárskatt sem greiða þarf af eigninni því fasteignamatið sjálft skapar grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda á fasteignina. Hækkun matsstigs fasteigna hækkar þá einnig um leið álagningarstofn fasteignagjalda sveitarfélaga. Fasteignamatið er einnig notað í ýmsum öðrum tilgangi. Til dæmis er fjárhæð stimpilgjalds vegna þinglýsingar kaupsamnings háð fasteignamati eignar. Enn fremur miða sumar lánastofnanir veðhæfni fasteigna við ákveðið hlutfall af fasteignamati.

Líkt og kemur fram á vef Þjóðskrár að þá er mikilvægt að eigendur gangi úr skugga um að upplýsingar um fasteignir þeirra séu rétt skráðar. Ef upplýsingarnar eru ekki réttar, þá skal koma athugasemdum á framfæri við byggingarfulltrúa í viðeigandi sveitarfélagi, en ef eigendur fasteignar telja að fasteignamat hennar endurspegli ekki gangverð að þá er hægt að gera athugasemd við það eða sækja um endurmat.

Hvað olli því svo og í hvaða tilgangi Þjóðskrá tók fram fyrir hendur byggingafulltrúa landsins við skráningu matsstigs fasteigna við gerð fasteignamats fyrir árið 2023 verða forstjóri Þjóðskrár og innviðaráðherra sem ber ábyrgð á stofnuninni að svara fyrir.

Höfundur er byggingarverkfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×