Fótbolti

Skoraði bæði fyrsta og síðasta heimavallarmark Orlando á tímabilinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagnar marki sínu gegn San Diego Wave.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagnar marki sínu gegn San Diego Wave. orlando pride

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði í síðasta heimaleik Orlando Pride í bandarísku deildinni á tímabilinu. Liðið gerði þá 2-2 jafntefli við San Diego Wave.

Gunnhildur Yrsa kom Orlando í 2-0 á 68. mínútu með sínu öðru deildarmarki á tímabilinu. Hún skallaði þá fyrirgjöf frá Courtney Petersen í netið.

Það fyrra kom í 2-2 jafntefli við Kansas City Current í 3. umferð deildarinnar. Það var fyrsta mark Orlando á heimavelli á tímabilinu og Gunnhildur Yrsa skoraði einnig það síðasta.

Átta mínútum eftir mark Gunnhildar Yrsu. minnkuðu gestirnir muninn og þremur mínútum fyrir leikslok jöfnuðu þeir. Lokatölur 2-2.

Orlando er í 9. sæti af fjórtán liðum og kemst ekki ofar í lokaumferðinni sem fer fram um næstu helgi.

Gunnhildur Yrsa er á sínu öðru tímabili hjá Orlando. Hún lék áður með Utah Royals. Garðbæingurinn hefur alls leikið 87 leiki í bandarísku deildinni og skorað fimm mörk.

Orlando sækir Megan Rapinoe og stöllur hennar í Reign heim í lokaumferð deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×