Erlent

Milljónum sagt að flýja undan Ian sem nálgast fimmta stigið

Samúel Karl Ólason skrifar
Ian er þegar byrjaður að valda tjóni í Flórída.
Ian er þegar byrjaður að valda tjóni í Flórída. AP/Joe Cavaretta

Fellibylurinn Ian stefnir hraðbyri á Flórída í Bandaríkjunum eftir að hafa valdið mikilli eyðileggingu og dauðsföllum á Kúbu. Heitur sjór á Mexíkóflóa hefur gefið fellibylnum aukinn kraft og er hann skilgreindur sem fjórða stigs fellibylur og sagður nálægt fimmta stiginu.

Um 2,5 milljónum íbúa Flórída hefur verið sagt að yfirgefa strandlengju ríkisins en veðurfræðingar búast við því að sjávarstaða muni hækka um allt að 3,6 metra. Það er til viðbótar við þá miklu rigningu og vind sem fylgir Ian.

Meðalvindhraði Ians er sagður vera um 70 metrar á sekúndu þar sem hann er mestur, samkvæmt frétt Wasthington Post. Það er einungis nokkrum metrum á sekúndu frá fimmta stigs skilgreiningu.

Bandarískir veðurfræðingar segja að Ian muni valda hamfaraflóðum víða í Flórída og það sama megi segja um vindinn. Hann muni líklega valda gífurlegum skemmdum.

Íbúar í Flórída hafa varið síðustu dögum í að undirbúa heimili sín fyrir komu Ians með því að byrgja fyrir glugga, leggja sandpoka og koma eigum sínum í skjól á efri hæðir húsa, ef það stendur þeim til boða.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, hefur varað við því að næstu dagar verði íbúum erfiðir.

Ian náði landi á vesturhluta Kúbu í gær og er sagður hafa valdið miklum skaða þar. Meðal annars er öll eyjan án rafmagns og einhverjir eru sagðir hafa dáið.

Sjá einnig: Rafmagnslaust á Kúbu vegna fellibylsins Ian

Hér að neðan má sjá myndefni frá AP fréttaveitunni sem tekið var upp á Kúbu.


Tengdar fréttir

Ian búinn að ná landi á Kúbu

Fellibylurinn Ian hefur náð landi á Kúbu en yfirvöld þar hafa flutt um fimmtíu þúsund manns úr vegi fellibyljarins. Ian er þriðja stigs fellibylur og óttast Bandaríkjamenn að hann muni ná fjórða stiginu og ná landi á vesturströnd Flórída seinna í vikunni.

Ian sækir í sig veðrið á leið til Kúbu

Hitabeltisstormurinn Ian stefnir nú hraðbyr á Kúbu og sækir í sig veðrið á leiðinni. Óveðrið hefur nú náð fellibylsstyrk en er enn að verða öflugri. Talið er að Ian muni ná landi á vesturhluta Kúbu í nótt og ná landi í Flórída seinna í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×