Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - ÍA 3-2| Keflavík sigraði loksins ÍA á heimavelli

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
5P8A7970
vísir/Diego

Skagamenn sóttu Keflavík heim í fyrsta leik neðri hluta Olís deildar karla. Það var mikið skemmtanagildi í leiknum þar sem fimm mörk litu dagsins ljós og þar af eitt úr víti. Lokatölur 3-2 fyrir Keflavík.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks hér í dag. ÍA í harðri baráttu að bjarga sér frá falli á meðan Keflavík keppist um að styrkja stöðu sína. Það voru Skagamenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins eftir rúmlega stundarfjórðung þegar Benedikt V. Warén tekur skotið rétt fyrir utan teig, boltinn fer af Magnúsi Þór Magnússyni, leikmanni Keflavíkur og í netið. Staðan 0-1 fyrir ÍA. 

Þegar tæplega hálftími var liðin af leiknum gefur Sindri Snær Magnússon boltann fyrir, Adam Ægir nær snertingu á boltann og endar hann hjá Kian Paul James Williams sem jafnar fyrir Keflavík. Staðan 1-1.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks brýtur Árni Marinó Einarsson, markmaður ÍA á Patrik Johannesen inn í teig. Patrik uppskar víti, fór sjálfur á punktinn og skoraði. Staðan 2-1 fyrir Keflavík. 

Þegar um stundarfjórðungur var liðin af seinni hálfleik sendir Gísli Laxdal Unnarsson boltann á Johannes Björn Vall sem rennir honum undir Sindra Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur, staðan 2-2. 

Á 62. mínútu fékk Josep Arthur Gibbs aukaspyrnu við teigin. Josep tekur spyrnuna sjálfur, kemur boltanum yfir varnarvegg ÍA og beint í netið. Staðan 3-2. Bæði lið héldu áfram að sækja af krafti en ekkert varð úr færunum og endaði leikurinn með sigri Keflavíkur. 

Afhverju vann Keflavík?

Þeir voru agaðir sóknarlega og fengu fullt af færum í leiknum. Þeir voru heilt yfir meira með boltann. 

Hverjir stóðu upp úr?

Josep Arthur Gibbs var virkilega góður í liði Keflavíkur og aukaspyrnan sem hann tók sem endaði í marki var frábær. Einstaklingsframlag hjá mörgum í Keflavík skilaði þessum sigri. 

Hvað gekk illa?

Það er erfitt að finna hluti sem gengu illa í leiknum þar sem að bæði lið voru að berjast fyrir lífi sínu. Þetta var alveg glórulaust brot hjá Árna Marinó á Patrik þar sem vítaspyrnan var dæmd. 

Hvað gerist næst?

Laugardaginn 8. október kl 14:00 fær ÍA Fram í heimsókn. Sunnudaginn 9. október kl 14:00 sækir Keflavík ÍBV heim. 

Jón Þór Hauksson: „Þetta var auðvitað ævintýralegur leikur“

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA.Vísir/Vilhelm

„Þetta var auðvitað ævintýralegur leikur og ótrúlega mikið af færum í þessum leik. Það er ógeðslega súrt að hafa tapað honum en það er bara þannig,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, svekktur eftir 3-2 tap á móti Keflavík í dag. 

„Það er alltaf þannig að verjast betur í mörkunum sem þeir skora og nýta færin sem við fáum. Við fengum færi til að skora meira í þessum leik. Eins og ég sagði þá var þetta ótrúlegur leikur, gríðarlega kaflaskiptur. Mér fannst Keflvíkingarnir byrja þennan leik betur og við komumst yfir. Eftir þennan fyrsta kafla þá jafnaðist aðeins leikurinn og við tókum aðeins yfir og komumst yfir. Síðan tóku þeir aftur yfir leikinn,  við vorum kannski klaufar að halda ekki control á honum eftir að við komumst 1-0 yfir í leiknum. Við héldum alltaf áfram að reyna að ná öðru markinu fyrir hálfleikinn og mér fannst þetta gríðarlega vel spilaður leikur. Hann var hraður og eins og ég segi, það var gríðarlega mikið af færum í honum.“

Leikurinn var kaflaskiptur og skiptust liðin á að ná tökum á leiknum. ÍA fékk ágæt færi í seinni hálfleik en vantaði herslumuninn að klára þau. 

„Liðin skiptust á að hafa yfir tökin en síðan fer hann yfir í að vera ævintýralegur hérna í seinni hálfleik. Þegar að við jöfnum 2-2 þá viljum við ná þessu þriðja marki og komast yfir í leiknum en þeir skora úr aukaspyrnu. Síðan fáum við þetta gullin tækifæri til að jafna leikinn en það gekk ekki því miður. Við teljum það líka að við hefðum átt að fá vítaspyrnu en það var allt í þessum leik þannig, þvílík dramatík.“

Jón Þór vill að liðið verjist betur í næsta leik og fá færri mörk á sig. 

„Við gerðum allt sem við gátum til þess að vinna þennan leik og það eru auðvitað hlutir sem við getum gert betur, verjast betur. Það er erfitt að vinna fótboltaleiki ef að þú færð á þig þrjú mörk.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira