Erlent

Hækkandi sjávar­staða og mögu­leiki á skyndi­flóðum víða vegna Ian

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Bíll á ferð í Charleston í Suður-Karólínu.
Bíll á ferð í Charleston í Suður-Karólínu. AP/Alex Brandon

Fellibylurinn Ian kom til Georgetown í Suður-Karólínu um klukkan 18:00 á íslenskum tíma og hefur þegar látið til sín taka. Íbúar í Flórída eiga enn við afleiðingar veðursins sem geisaði þar þegar fellibylurinn átti leið hjá.

Íbúar á öðrum svæðum hafa einnig orðið varir við fellibylinn en mikið vatn hefur safnast saman á götum Charleston. Þar að auki voru meira en tvær milljónir án rafmagns í Flórída, Suður-Karólínu og Norður-Karólínu. Þessu greinir CNN frá.

Fellibylurinn var í fjórða flokki þegar hann kom til Flórída nú á dögunum en bandaríska veðurstofan hefur fimm flokka yfir hámarks vindhraða fellibyla. Flokkunin taki ekki til greina snögg stig þeirra, flóð vegna rigningar eða aðrar hættulegar afleiðingar. Fimmta stigið er það hæsta.

Þegar bylurinn kom til Suður-Karólínu fyrr í dag var hann metinn sem fyrsta flokks en sjávarstaða hækkaði til dæmis um 1,2 metra við Myrtle Beach í Suður-Karólínu og meira en 2 metra við eyju 112 kílómetra norður af Charleston.

Fellibylurinn er enn talinn geta valdið skyndiflóðum og miklu regni, að minnsta kosti fram á morgundaginn í Suður- og Norður-Karólínu ásamt Virginíu og Vestur-Virginíu.

Íbúar í Flórída eiga nú margir um sárt að binda í kjölfar veðursins og eiga 34 þúsund manns nú að hafa skráð sig á aðstoðarlista bandarískra almannavarna (FEMA). Freista þau þess að fá aðstoð við það að fá tjón vegna stormsins bætt frá tryggingum. Washington Post greinir frá þessu.

Einnig sé eldsneytisskortur í Flórída vegna fellibylsins. Langar raðir hafi myndast hjá þeim bensínstöðvum sem ekki eru rafmagnslausar og standa enn.


Tengdar fréttir

Ian stefnir hraðbyri að Suður-Karólínu

Íbúar við strendur Suður-Karólínu í Bandaríkjunum hafa flúið heimili sín og leitað á hærri svæði í aðdraganda þess að fellibylurinn Ian nær þar landi. Fellibylurinn hefur þegar valdið gífurlegum skaða á Kúbu og í Flórída en hefur safnað krafti á nýjan leik og veðurfræðingar búast við miklum flóðum í Charleston og víðar.

Ian gæti orðið sá mann­skæðasti í sögu Flórída

Fellibylurinn Ian, sem gekk á land í Flórída í Bandaríkjunum í gær, hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar og óttast er að hann sé mannskæðasti fellibylur í sögu Flórída. Íbúðarhús eru víða gjörónýt, þak fauk af spítala, vegir skemmdust og brýr hrundu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×