Leikurinn sem ræður því hvort Ísland komist á HM í fyrsta sinn er á þriðjudaginn í portúgalska bænum Pacos de Ferreira, og setti Icelandair í gærkvöld í sölu ferð á leikinn mikilvæga.
Portúgal tók á móti Belgíu í gærkvöld og hefðu Belgar unnið væru Íslendingar á leið til Brussel. Þess í stað heldur íslenska liðið kyrru fyrir í Portúgal en það hefur verið við æfingar í Algarve.
Portúgal fagnaði nefnilega sætum 2-1 sigri gegn Belgíu og leikmenn liðsins fögnuðu sigrinum innilega, nánast eins og HM-farseðillinn væri í höfn. Liðið hefur verið með á síðustu tveimur Evrópumótum en líkt og Ísland aldrei komist á HM.
! Mais um passo dado rumo ao Mundial! #VesteABandeira
— Portugal (@selecaoportugal) October 6, 2022
! One more step! Next stop: Paços de Ferreira! #WearTheFlag pic.twitter.com/Kz3CfyvotO
Það var á Þorsteini að heyra í gærkvöld að hann hefði frekar búist við því að endurnýja kynnin við Belga, sem Ísland mætti á EM í sumar, en hann hrósaði Portúgal fyrir frábæran leik gegn Belgum:
„Við vorum að horfa á leikinn og Portúgalsliðið var frábært í þessum leik og átti sigurinn skilið. Þær voru sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu,“ sagði Þorsteinn í viðtali á samfélagsmiðlum KSÍ.
„Það eru greinilega einhver meiðslavandræði í sóknarhlutanum hjá Belgíu, svo þær áttu erfitt með að skapa sér eitthvað og halda í boltann þegar þær voru komnar fram á við. Það hafði greinilega áhrif að það vantaði tvo mikilvæga pósta í sóknarleikinn, svo hann varð bitlausari.
En það var rosalegur kraftur í Portúgal, þær fórnuðu öllu í þetta og spiluðu virkilega góðan og flottan leik,“ sagði Þorsteinn.
Þorsteinn H. Halldórsson ræddi við KSÍ TV um Portúgal, mótherja liðsins í umspili fyrir HM 2023.#dottir #alltundir pic.twitter.com/vItyxMER7d
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) October 6, 2022
Leikur Portúgals og Íslands er þriðjudaginn 11. október klukkan 17 að íslenskum tíma. Vinni Ísland í venjulegum leiktíma eða framlengingu kemst liðið á HM í Eyjaálfu 2023 en vinni liðið í vítaspyrnukeppni er mögulegt að það þurfi að fara í aukaumspil í febrúar með liðum úr öðrum heimsálfum.